Erla Hlynsdóttir hafði betur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í morgun en þetta er þriðja málið sem Erla vinnur gegn íslenska ríkinu. Líkt og í hin tvö skiptin var Hæstiréttur dæmdur fyrir brot á tíundu grein Mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um tjáningarfrelsið. Erla segir niðurstöðuna ákveðinn létti en hún hefur unnið öll mál sem hún og lögmaður hennar hafa farið með fyrir Mannréttindadómstólinn gegn íslenska ríkinu.
Dómarar málsins voru sammála um að íslenska ríkið hafi brotið gegn tíundu grein sáttmálans og var íslenska ríkið dæmt til þess að greiða Erlu 4.500 evrur, sem svarar til 665 þúsund króna, í bætur.
Til umfjöllunar var dómur Hæstaréttar þar sem Erla Hlynsdóttir var dæmd ábyrg fyrir fyrirsögn á forsíðu DV í júlí 2007. Um var að ræða umfjöllun Erlu um mann sem grunaður var um stórfelldan kókaíninnflutning.
Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Erlu, var að vonum ánægður þegar mbl.is náði tali af honum í morgun enda þriðja málið sem þau Erla vinna saman fyrir Mannréttindadómstólnum og fjórða málið sem hann vinnur fyrir skjólstæðinga sína þar en hann var einnig með mál Bjarkar Eiðsdóttur sem var blaðamaður á Vikunni.
Örugglega sjaldgæfara en að vinna í lottó
Hann segir að aldrei áður hafi Íslendingur unnið svo mörg mál fyrir Mannréttindadómstólnum en af þeim 50 þúsund málum sem dæmd eru á ári síðustu 60 árin þá hefur það kannski gerst tvisvar eða þrisvar að einn einstaklingur hafi unnið svo mörg mál. „Þetta er örugglega sjaldgæfara en að vinna í lottóinu,“ segir Gunnar.
Það bíður eitt mál á vegum Gunnars hjá Mannréttindadómstólnum en tvö ár eru liðin síðan það mál var kært. Ástæðan fyrir þeirri kæru er sú að Hæstiréttur hafi dæmt í andstöðu við niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í fyrsta máli Erlu fyrir dómstólnum og máli Bjarkar Eiðsdóttur.
Maðurinn var sýknaður af ákæru og krafðist hann þess að ómerkt yrðu ummæli sem birtust í DV í júlí 2007. Erla var nafngreind sem höfundur greinarinnar í DV en maðurinn höfðaði mál gegn henni og Sigurjóni M. Egilssyni, sem þá var ritstjóri blaðsins.
Á forsíðunni var stór ljósmynd af áfrýjanda og felld inn í hana fyrirsögnin „Hræddir kókaínsmyglarar“ með áberandi letri, en neðan við hana sagði að áfrýjandi ætti yfir höfði sér sjö til átta ára fangelsi vegna innflutnings á kókaíni og mætti meðákærði, sem var nafngreindur, búast við þriggja til fjögurra ára fangelsi fyrir að fjarlægja ætluð fíkniefni úr bifreið áfrýjanda.
Sagði einnig að „báðir óttast hefndaraðgerðir samverkamanna gefi þeir upp nöfn þeirra“ og var síðan vísað til umfjöllunar á 2. blaðsíðu. Efst á þeirri síðu var endurtekin frásögnin, sem kom fram í undirfyrirsögninni á forsíðu, en þar fyrir neðan voru stórar ljósmyndir af áfrýjanda og meðákærða. Inn á ljósmyndina af áfrýjanda var settur texti, þar sem sagði að fyrir dómi hafi hann ekki viljað „gefa upp nafn mannsins sem hann er ákærður fyrir að hafa flutt inn fíkniefnin með.
Í dómi Hæstaréttar er ómerkt orðið „kókaínsmyglarar“, sem birtist á forsíðu 96. tölublaðs DV 5. júlí 2007, og orðin „í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað“, sem birtust í grein á 2. blaðsíðu sama tölublaðs.
Þau Sigurjón Magnús Egilsson og Erla Hlynsdóttir voru dæmd til að greiða manninum í sameiningu 150 þúsund krónur og 250 þúsund í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu