Getum við ekki gert betur?

Alþingishúsið
Alþingishúsið Ómar Óskarsson

Of hefur nýjum þingmönnum blöskrað vinnubrögðin á Alþingi og kallað eftir breytingu. Eldar Ástþórsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, er þar engin undantekning, en hann tók til máls á Alþingi í dag og spurði hvort þingmenn gætu ekki gert betur. Nefndi hann dæmi um atriði sem gerðu starfsumhverfið slæmt og mál sem virtust bara til þess fallin að vekja upp úlfúð.

Hrósaði hugmyndum um skattalækkun

Eldar byrjaði reyndar ræðu sína á að hrósa ríkisstjórninni fyrir hugmyndir um skattalækkun. Sagði hann að slíkt væri mun skynsamlegri leið en að ríkið væri að verja tugum milljarða í að greiða niður einkaskuldir og átti þar væntanlega við skuldaleiðréttinguna. Sagði hann reyndar að það ætti eftir að koma í ljós hvaðan peningarnir kæmu fyrir skattalækkuninni, en að þetta væri samt sem áður fagnaðarefni.

Þá tók hann til máls um störf þingsins, sem hann gaf ekki mikið fyrir. „Getum við virkilega ekki gert betur,“ sagði hann um upplifun sína á fyrstu viku sinni sem þingmaður. „Ég skil ekki hvernig þið getið unnið í þessu umhverfi,“ bætti hann við og tiltók að búið væri að fella starfsáætlun þingsins úr gildi. Þá væri algengt að hrópað og kallað væri að þingmönnum meðan þeir væru í pontu.

Kenna öðrum um

Eldar beindi einnig orðum sínum að þeirri rökræðuaðferð sem væri almenn á þinginu. Sagði hann að þingmenn og ráðherrar svöruðu almennt fyrirspurnum og gagnrýni á þann veg að fyrri ríkisstjórn hafi verið svo slæm og tekið slæmar ákvarðanir. „Fyrir mér og mörgum öðrum þá er það bara engin afsökun, engin afsökun fyrir eigin ákvörðunum og engin afsökun fyrir þeim starfsháttum sem viðhafðir eru hér á Alþingi.“

Gagnrýndi hann einnig þau vinnubrögð sem viðhöfð væru í nefndum og benti á mál frumvarp þar sem lagt er til þess að skipulagsvald sé að einhverju leyti tekið af sveitarfélögum í landinu. Sagði hann málið augljóslega sett fram á lokadögum þingsins til að skapa úlfúð. Til þess að bæta starfsumhverfið sagði Eldar að þingið þyrfti að sýna önnur og betri vinnubrögð.

Eldar Ástþórsson tók sæti á Alþingi í síðustu viku.
Eldar Ástþórsson tók sæti á Alþingi í síðustu viku.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert