„Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu,“ skrifar Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi DV, á Facebook-síðu sína. Tvær konur voru handteknar á föstudag grunaðar um að reyna að kúga fé út úr forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Í frétt Vísis segir að í bréfi, sem konurnar sendu Sigmundi, hafi því verið hótað að gera opinberar upplýsingar um meint fjárhagsleg tengsl hans og Björns Inga, m.a. upplýsingar um kaup Björns Inga á DV.
„Ég er harmi sleginn yfir fregnum dagsins,“ skrifar Björn Ingi. „Hugur minn er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa máls. Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu. Að öðru leyti óska ég eftir því að tekið sé tillit til þess að hér er mannlegur harmleikur á ferðinni og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.“
Konurnar tvær hafa játað að senda bréf til ráðherrans.
Frétt mbl.is: Grunaðar um að reyna að kúga fé af Sigmundi