„Þetta eru skýr skilaboð til þeirra sem valdið hafa um að þeir eru að gera eitthvað ekki rétt og þurfa kannski að taka til sín þessi afdráttarlausu skilaboð um að hlusta betur eftir því sem fólkið vill í landinu,“ segir Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata í kjölfar skoðanakönnunarinnar sem birt var í gær. Mældust þar Píratar stærstir í fimm af sex kjördæmum og alls með 34,1% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn var næststærstur með 23% og Samfylkingin með 12,4%.
Þessi misskipting sem er hér og þessi frumvörp sem hafa verið að koma fram og auka á misskiptinguna er ekki mjög sniðug til að fá fólk með sér og ég held að það se mjög brýnt að það sé gert eitthvað í því. Þegar fólk kallar eftir því að ákveðin lög séu ekki samþykkt, þá verður að hlusta á það með afgerandi hætti,“ segir Birgitta.
Hún segir að fólk hafi fengið nóg af því að geta ekki haft áhrif á samfélagið eftir að þingmenn hafa tekið sæti á þingi. „Almennt séð hefur fólk bara fengið nóg á að geta ekkert gert þegar fólk lýgur sig inn á þing og vill að það sé hlustað á það. Ég skynja það þegar ég fylgist með því sem fólk er að segja, fólk vill gjörbreytingu á samfélaginu, að kerfið verði skilvirkara og að grunnstoðirnar séu lagaðar og að við losnum við spillinguna. Að við fáum þetta nýja Ísland sem var svo mikið ákall eftir í kjölfar hrunsins.“
Hún segir fólk treysta Pírötum þar sem þeir tengjast ekki gömlu flokkunum. „Ég held að ástæðan fyrir því að fólk segist vilja treysta pírötum er að við tengjumst ekki gömlu valdaklíkunum. við erum nýtt fólk sem er ekki að koma úr þessum heimi sem hefur alltaf stjórnað öllu hérna, og treystir á okkur að vera ekki meðvirk með því valdi og vill frekar koma á kerfisbreytingum. Mér finnst mikilvægast að fólk átti sig á að einstaklingar geta og eiga að taka þátt í því að móta samfélagið sitt.“
Fylgi Pírata fór fyrst á flug eftir að ríkisstjórnin ákvað að afturkalla Evrópusambandsumsóknina og hefur haldist um 30% síðan, á sama tíma og aðrir stjórnarandstöðuflokkar hafa ekki bætt við sig fylgi í könnunum frá kosningum. „Ég held að fólk upplifi sig sem svikið af því sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sögðu fyrir kosningar og svo því sem síðan gerðist. Fólk spyr sig þá, hverjum getum við treyst?“
Næst á dagskrá hjá Pírötum er að sögn Birgittu að styrkja innviði flokksins og grasrótina, enda er langt til kosninga. „Við þurfum að halda áfram að vera við sjálf og styrkja innviði grasrótarinnar okkar. Það er pínu snúið fyrir okkur því við erum í raun bara 5% flokkur og höfum ekki mikið fjármagn. Við höfum til dæmis ekki getað ráðið okkur starfsmann heldur töldum mikilvægara að nota fjármagn í húsnæði. Allir sjálfboðaliðarnir okkar hafa lagt á sig ótrúlega mikla vinnu til þess að taka við öllu þessu fólki sem vill vera með.