Ísland fjarlægt smám saman

AFP

Taka mun einhvern tíma að fjarlægja Ísland af öllum vefsíðum Evrópusambandsins þar sem fjallað er um umsóknarríki að sambandinu.

Þetta segir Klemens Ólafur Þrastarson, upplýsingafulltrúi sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi, í samtali við mbl.is en framkvæmdastjórn ESB tók á dögunum ákvörðun um að verða við óskum ríkisstjórnarinnar um að taka Ísland af lista yfir umsóknarríki. Klemens segir að það verði hins vegar smám saman gert. Evrópusambandinu sé full alvara í að verða við ósk ríkisstjórnarinnar.

Eins og mbl.is greindi frá fyrir helgi hafði Ísland verið tekið af lista yfir umsóknarríki á vefsíðu stækkunardeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hins vegar var fjallað um það yfir helgina að á ýmsum öðrum vefsíðum sambandsins væri Ísland enn sagt umsóknarríki. Þannig greindi fréttavefurinn Nútíminn frá því að þetta ætti við um vefsíðu Evrópusambandsins yfir ríki þess og ríki sem væru á leið í sambandið. Þeirri vefsíðu hefur hins vegar verið breytt síðan og er Ísland ekki lengur að finna á þeirri vefsíðu.

„Það er einfaldlega verið að tína þetta út smám saman,“ segir Klemens. Sú vinna haldi áfram á næstu dögum. Það gæti þó mögulega gerst að eftir einhverjar vikur mætti enn finna einhverjar vísanir í Ísland sem umsóknarríki á einhverjum vefsíðum á vegum Evrópusambandsins en skýringin á því væri þá sú að þær síður hafi gleymst. „En það hefur enga merkingu ef það gerist. Þá verður það bara leiðrétt.“

Frétt mbl.is: Ísland af lista yfir umsóknarríki

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka