Rúmlega tuttugu ljósmæður undirbúa það að sækja um vinnu annars staðar á Norðurlöndum. Félagsmenn í sex samtökum iðnaðarmanna sem eru í samfloti í kjaraviðræðum við vinnuveitendur samþykktu að boða til vikulangs verkfalls frá 10. júní, hafi ekki samist.
Í síðustu viku sóttu 22 ljósmæður sér skjöl til landlæknis til staðfestingar á réttindum sínum til að geta sótt um leyfi til að starfa annars staðar á Norðurlöndum. Samsvarar það 17% ljósmæðra á Landspítalanum. Tvær hafa þegar ráðið sig til Svíþjóðar.
„Ég tel að þetta sé fyrst og fremst vegna launanna, þær séu að sækja sér peninga,“ segir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, í umfjöllun um mál þetta og yfirstandandi kjaraviðræður í Morgunblaðinu í dag. „Fleiri eru að líta til þess að hreyfa sig. Það er svekkelsi með vinnustaðinn, svekkelsi með að fá ekki full laun fyrir vinnuna undanfarna mánuði og leiði vegna langvarandi álags á deildunum.“