Skapar 1000 ársverk og á mikið inni

Hilmar Sigurðsson, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda.
Hilmar Sigurðsson, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda. KRISTINN INGVARSSON

Kvikmyndaframleiðsla hér á landi skapar um 900-1000 ársverk og veltir um 15,5 milljörðum. Á fjórum árum hefur veltan aukist um 300%, en þrátt fyrir þetta mikla stökk og sveiflukenndan markað sjá kvikmyndaframleiðendur fram á að veltan á þessu ári verið svipuð. Meðal þeirra verkefna sem unnið hefur verið að og er í pípunum á árinu er metfjöldi íslenskra kvikmynda, Ófærð, sem er stærsta íslenska sjónvarpsþáttaverkefnið, þriðja þáttaröðin af Rétti, tvær þýskar sjónvarpsmyndir og möguleg Hollywood mynd.

Spá svipaðri veltu, en eiga mikið inni

Hilmar Sigurðsson, hjá GunHil, var í síðustu viku endurkjörinn formaður SÍK – samtökum íslenskra kvikmyndaframleiðenda. Hann segir í samtali við mbl.is að aukningin undanfarin ár hafi verið fordæmalaus, en um leið sýnt að geirinn hér heima sé mjög sveigjanlegur og geti tekist á við risavaxin verkefni og mikla aukningu. Þá sé mikill áhugi hjá ungu fólki og enn fullt af fólki að mennta sig í greininni. Bendir Hilmar á að í síðustu kvikmyndakeppni fyrir grunnskólanemendur hafi aldrei verið fleiri þátttakendur. Því sé ljóst að greinin eigi mikið inni og geti haldið áfram að stækka.

Aðspurður hvernig hann sjái fyrir sér þetta ár í kvikmyndaframleiðslu, segist Hilmar ekki sjá betur en að veltan í ár verði á svipuðu róli og síðustu þrjú ár og muni því halda dampi. „Það eru alltaf nokkur burðaverkefni og stór erlend verkefni, en þetta er mjög fjölbreytt í ár,“ segir Hilmar og bendir á þann mikla fjölda kvikmynda sem nú sé verið að framleiða hér á landi.

Óvenjumargar frumsýningar í ár

Hilmar segir að það sé alltaf að verða meiri og meiri eftirspurn eftir kvikmyndaefni á heimsvísu. Greinin sé aftur á móti á miklu breytingaskeiði þar sem margir séu að kljást við minni sölu mynddiska og því hafi menn jafnvel gert ráð fyrir samdrætti vegna óvissunnar. Raunin hér á landi hafi aftur á móti verið öfug og sést það best á því að gert sé ráð fyrir metfjölda frumsýninga á íslenskum kvikmyndum í ár, eða allt að 12 myndum. Aðeins fjórar þeirra hlutu stóra styrki frá Kvikmyndamiðstöðinni og því margir sem náðu að fjármagna verkefnin eftir öðrum leiðum, þannig að trú fjárfesta er einhver á gróskunni hér á landi.

Veltutölurnar í greininni eru að sögn Hilmar nokkuð villandi, en hann segir að aðeins sé hægt að horfa til þess skattnúmers sem framleiðslufyrirtæki eru skráð undir. Þarna komi því ekki eigin framleiðsla sjónvarpsstöðva eins og RÚV og Stöð 2. Hann segir að samtökin bíði eftir því að greininni verði gerð betri skil í reikningum Hagstofunnar, en stofnunin gerði heildarkönnun árið 2013. Kom þar meðal annars fram að af 12,3 milljarða heildarveltu voru 3,4 milljarðar erlendar tekjur. Sambærilegar tölur eru ekki til fyrir önnur ár, t.d. „Hollywoodsumarið mikla“ árið 2012.

Skatttekjur talsvert meiri en endurgreiðslan

Þá segir Hilmar að Hagfræðistofnun HÍ sé að vinna að úttekt á endurgreiðslu ríkisins til erlendra framleiðenda sem komi hingað, að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Endurgreiðslan er í dag 20% og nam á árunum 2012 til 2014 3,1 milljarði, eða 7,6% af heildarveltu greinarinnar. Hilmar segir að samkvæmt lauslegri áætlun sé ljóst að virðisaukaskattur vegna útgjalda erlendu verkefnanna hér á landi, t.d. í formi gistingar, neyslu og annarra aðfanga, sé talsvert meiri en endurgreiðslan og þannig skili erlendu stórverkefnin meiru í þjóðarbúið en sé endurgreitt. Til viðbótar er innlenda starfsfólkinu greidd laun sem það borgar af skatta hér á landi. Skýrslan er ekki tilbúin enn þá, en Hilar segir að kvikmyndaframleiðendur bíði spenntir eftir að sjá niðurstöðurnar.

Veltan dreifist víða um land

Það sem Hilmar segir þó mikilvægast við þessi stóru verkefni er að veltan dreifist vel út um allt land. Þannig hafi t.d. þættirnir Fortitude verið teknir upp í Fjarðabyggð, Game of thrones og Oblivion víðsvegar um landið og Secet life of Walter Mitty í Stykkishólmi. Veltan eigi sér einnig oft stað utan hefðbundins ferðamannatíma, þó Hilmar segi hlægjandi að í raun sé allt árið orðið að ferðamannatíma í dag.

Úr þáttunum Game of Thrones. Hluti þeirra er tekinn á …
Úr þáttunum Game of Thrones. Hluti þeirra er tekinn á Íslandi.
Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð var tekin upp á Siglufirði.
Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð var tekin upp á Siglufirði.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert