Strandblaksæði á klakanum

Strandblakvöllurinn við hlið sundlaugarinnar í Laugardal er fyrsti völlurinn hérlendis …
Strandblakvöllurinn við hlið sundlaugarinnar í Laugardal er fyrsti völlurinn hérlendis sem er gildur í alþjóðakeppnum. Almenningur getur einnig spilað á vellinum, en næstu daga verður hann aftur á móti talsvert notaður í tengslum við smáþjóðaleikana.

Strandblak hefur á síðustu árum stækkað mikið hér á landi og í dag eru nokkur hundruð manns sem spila íþróttina að jafnaði. Við það bætist að margir vina- og vinnustaðahópar eru duglegir við að taka leiki yfir sumartímann þegar gott veður er. Uppbyggingin hefur verið nokkuð hröð og í dag eru vellirnir orðnir 41 á 29 stöðum á landinu.

Útlendingar reka upp stór augu

Jason Ívarsson, formaður blaksambands Íslands, segir í samtali við mbl.is að það sé í raun ótrúlegt hversu vinsæl strandblakíþróttin sé orðin hér á landi. Segir hann að útlendingar reki margir hverjir upp stór augu þegar þeim sé sagt að hér sé strandblak stundað, hvað þá að Ísland taki þátt í undankeppnum fyrir ólympíuleikana.

„Þetta byrjaði smátt fyrir nokkuð mörgum árum, en síðustu 5-7 ár hefur verið mikill vöxtur á hverju ári,“ segir Jason. Flestir þeirra sem stunda íþróttina eru að hans sögn fólk sem stundar blak innanhúss á veturna en fer svo út í strandblak á sumrin. Þó séu einnig dæmi um einstaklinga sem stundi bara strandblakið.

Keppendur í heild nokkur hundruð

Með þróun íþróttarinnar segir hann að fólk muni þurfa að velja frekar hvora íþróttina það ætli að stunda, enda séu þær alls ekki alveg eins, þótt líkindi séu eflaust mikil. Í dag er keppt í unglingaflokki, úrvalsdeild og nokkrum undirflokkum, en Jason segir að heildarfjöldi keppenda séu nokkur hundruð manns. Þá sé ótalið allir þeir sem stundi greinina sem áhugamál með vinum og kunningjum eða skólakrakkar sem spili þetta í tengslum við íþróttakennslu, en nokkrir vellir eru nálægt skólum.

Á hverju ári fer fram strandblakmótaröð og hefst tímabilið um miðjan júní. Segir Jason að almennt sé svo keppt hálfsmánaðarlega fram í lok ágúst, en þar sem flestir vellirnir eru innandyra er keppnistímabilið yfir hásumarið.

Fyrsti gildi alþjóðakeppnisvöllurinn

Eins og nafnið gefur til kynna er strandblak upprunnið frá því að spila blak á ströndinni. Í dag er þó búið að setja upp velli víða um land, þótt engin strönd sé nálægt. Það þarf þó alltaf að koma fyrir sandi og segir Jason að hann geti verið mjög mismunandi. Þannig sé náttúrulegi sandurinn hér á Íslandi nokkuð grófur og þéttur í sér. Á mörgum völlum hafi aftur á móti verið passað upp á að fá eins fínan skeljasand og hægt er hérlendis. Fyrir helgi var svo opnaður fyrsti völlurinn með erlendum skeljasandi og með því er íþróttina komin með fyrsta völlinn hér á landi sem er gildur í alþjóðakeppnum, en nýi völlurinn í Laugardal verður notaður sem keppnisvöllur á Smáþjóðaleikunum sem hófust í dag.

Ekki fjarlægur möguleiki að ná verðlaunasæti

En eiga Íslendingar með enga hefð fyrir strandblaki eða strandíþróttum einhvern möguleika í aðrar þjóðir í þessari íþrótt? Jason segir að fyrsta rósin í hnappagatið hafi verið árið 2007 þegar kvennalandsliðið náði þriðja sæti á smáþjóðaleikunum í Mónakó. Hann segir að Lichtenstein og Lúxemborg séu lang öflugustu smáþjóðirnar í Evrópu í íþróttinni, en það sé hins vegar alls ekki fjarlægur möguleiki á að vinna til verðlauna á smáþjóðleikunum sem hófust í gær. Þá hafi íslenska liðið tekið þátt í undankeppni ólympíuleikana síðast og þrátt fyrir að hafa ekki komist langt hafi ekki verið um nei skíttöp að ræða. Þar hafi liðin sýnt að þau væru að verða gjaldgengari í alþjóðlegum keppnum og að starfið undanfarin ár hafi verið að skila sér.

Bjartasta vonin í Danmörku

Bendir Jason á að meðal annars sé að koma upp mjög sterkt par í kvennaflokki, en aðeins tveir eru í hverju liði. Þær Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir spiluðu saman í Danmörku fyrir tveimur árum og var Elísabet meðal annars valin bjartasta vonin í Danmörku.

Íslenska liðið hefur leik á smáþjóðaleikunum á dag á nýja vellinum við Laugardalslaugina klukkan 16:30, en þá spilar karlalandsliðið við Andorra. Kvennaliðið spilar sinn fyrsta leik klukkan 17:30, en hann er við Lichtenstein.

Lesa má nánar um staðsetningu og lýsingu strandblakvalla á Íslandi á vef BLÍ.

Strandblak nýtur aukinna vinsælda hér á landi, sérstaklega á sólríkum …
Strandblak nýtur aukinna vinsælda hér á landi, sérstaklega á sólríkum dögum. Ómar Óskarsson
Jason Ívarsson, formaður BLÍ Blaksamband Íslans
Jason Ívarsson, formaður BLÍ Blaksamband Íslans
Frá Akureyri.
Frá Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Staðsetning vallarins í Laugardal.
Staðsetning vallarins í Laugardal.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka