„Það verður að fara að ljúka þessu“

BHM og samninganefnd ríkisins munu funda í húsi ríkissáttasemjara í …
BHM og samninganefnd ríkisins munu funda í húsi ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Kristinn

„Það er öllum ljóst að það verður að fara að ljúka þessu,“ segir Páll Hall­dórs­son, formaður samn­inga­nefnd­ar BHM, um kjaradeilur bandalagsins og ríkisins. Enn hafa engir samningar náðst en félagsmenn BHM hafa nú verið í verkfalli í tæpar níu vikur.

Fulltrúar bandalagsins funduðu með Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, í gær þar sem málin voru rædd fyrir utan samningaborðið. „Menn eru bara að leita einhverra leiða,“ segir Páll, en bætir við að erfitt sé að leita án þess að tekið sé almennilega á launaliðnum. 

Þá hefur verið boðað til samningafundar klukkan 14 í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara, og segist Páll vonast til að nýjar tillögur komi fram frá ríkinu. „Við skulum vona það besta.“

Horfa til læknasamninganna

Grunnkrafa BHM er að menntun sé metin til launa, og horfir samninganefndin til samninga sem gerðir voru við lækna fyrr á árinu í þeim efnum. „Ríkið taldi sig þar fært til að meta menntun lækna til launa og við teljum að það sé hægt að gera það með sama hætti við okkar fólk,“ segir hann.

Á föstu­dag lagði ríkið fram til­boð í deil­unni sem var álíka þeim samn­ing­um sem sam­ist hafði um á al­menna markaðinum. BHM hafnaði því til­boði og seg­ir Páll að í því hafi ekki verið horft til þessarar helstu kröfu fé­lags­ins.

BHM lagði í kjöl­farið fram annað til­boð og að sögn Páls voru þar lagðar fram ítr­ustu kröf­ur fé­lags­ins sem samninganefndin var til­búin að semja út frá. Svarið frá rík­inu hafi verið á þann veg að ekki væri hægt að semja um annað en ríkið væri að leggja fram. Samn­inga­nefnd rík­is­ins sleit því viðræðunum.

Tilbúin að semja sig frá kröfunni

„Krafan sem við leggjum fram er krafa sem við erum tilbúin að semja okkur frá. Vandamálið er það að ríkið er búið að binda sig fast í þessa samninga sem hafa verið gerðir á almenna markaðnum og í þeirra huga er það að semja frá okkar kröfu að semja að þeirra kröfu fullkomlega. Við sjáum að þarna verði að finna lendingu, en það hefur reynst erfitt.“

Páll segir ýmsar leiðir færar í því fyrir samninganefnd BHM að semja sig frá sínum kröfum, en meginkrafan sé þó sú að það komi skýrt fram í nýjum samningi að það menntun skili sér í launum. „Tilboðið eins og það er núna er ekki að gera það og langt því frá,“ segir hann. 

Þá segir hann fleiri stéttir líta til þessa, og bendir á kjaradeilu iðnaðarmanna. „Þetta er ekki bara spurning um háskólamenntun heldur líka það ef fólk leggur á sig eitthvað og öðlast kunnáttu, hver sem hún er, að það skili sér í launum. Annars hugsa menn sig tvisvar um áður en þeir fara út í slíkt.“

Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM.
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert