Undanþága fékkst frá verkfalli BHM fyrir sendingu af býflugum, sem gat því komist í gegnum tollafgreiðslu og inn í landið fyrir skömmu. Býflugurnar eru nauðsynlegar fyrir tómatabændur í landinu til að frjóvga plöntuna.
„Býflugnabúin duga í nokkrar vikur. Við vorum búin að taka vel inn af býflugnabúum áður en verkfallið byrjaði og vorum komin á tæpasta vað þegar nýju flugurnar komu,“ segir Axel Thorsteinsson hjá garðyrkjubýlinu Brún, sem er einn stærsti ræktandi kirsuberjatómata í landinu.
Öll ræktun á búinu er vistvæn, án eiturefna, en býflugur sjá um frjóvgun og vespur sjá um skaðlegar flugur. Flugurnar eru því nauðsynlegar búinu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.