„Ég get aldrei hætt“

Erla á blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál. …
Erla á blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál. Hún segist trúa því að sannleikurinn verði dreginn fram í dagsljósið. mbl.is/Rósa Braga

„Ég gerði ráð fyrir hverju sem var,“ segir Erla Bolladóttir um umsögn Davíðs Þórs Björgvinssonar, setts ríkissaksóknara í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, um endurupptökubeiðni Erlu. Í umsögninni, sem Davíð Þór hefur skilað endurupptökunefnd, tekur hann hvorki afstöðu með né á móti beiðni Erlu.

Að sögn Ragnars Aðalsteinssonar, lögmanns Erlu, telur ríkissaksóknari að ekki hafi verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti að lagaskilyrðum til endurupptöku væri fullnægt. Hann taldi hins vegar að forsendur væru til endurupptöku máls Guðjóns Skarphéðinssonar.

- En byggja báðar beiðnir ekki á sömu rökum?

„Jú mjög svipuðum,“ segir Ragnar. „En munurinn er auðvitað sá að Guðjón var miklu lengur í varðhaldi heldur en Erla, og hann var grunaður um manndráp og dæmdur fyrir manndráp, en Erla var sýknuð af allri aðild að manndrápsákærum en hins vegar dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir að bera rangar sakir á menn. Um að tilteknir menn hefðu verið staddir í fjörunni við dráttarbrautina í Keflavík þegar Geirfinnur Einarsson er talinn hafa horfið,“ segir hann.

Ragnar segir ólíkar umsagnir setts ríkissaksóknara helgast af þessum mun. „Já, hann telur að Erla hafi borið um tiltekna hluti án þess að sæta sambærilegum þvingunum og t.d. Guðjón sem var í gæsluvarðahaldi.“

Þess ber að geta að Ragnar er einnig lögmaður Guðjóns.

Settur ríkissaksóknari hefur fengið frest til 1. júlí til að skila umsögnum um þrjár aðrar endurupptökubeiðnir sem borist hafa í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmál. Að sögn Ragnars er einnig unnið að flokkun og skráningu skjala sem málið varða á Þjóðskjalasafninu, en þau séu „óteljandi“.

„Svo gefst okkur talsmönnum kostur á því í júlí að skila andmælum eða andsvörum við greinargerð setts ríkissaksóknara og það ætti að vera búið í ágústbyrjun,“ segir Ragnar. Málið verði þvínæst tekið til munnlegrar málsmeðferðar fyrir endurupptökunefndinni, sem mun skila niðurstöðum um áramót.

Spurður að því hvort vegferðinni sé lokið ef nefndin hafnar endurupptöku í einu eða fleiri málum svarar Ragnar stutt og laggott: „Já“. Engin önnur úrræði séu fyrir hendi.

„Ég get aldrei hætt“

Sjálf segir Erla að niðurstaða Davíðs Þórs hafi ekki komið henni á óvart að því marki að málið sé snúið og gögnin fjölmörg. „En það var svolítið erfitt að hún skyldi ekki vera afdráttarlaus,“ segir hún.

Hún segir þó ekki hafa neitt út á umsögnina að setja; hún þýði bara að meiri vinna sé framundan.

Erla segist nokkuð örugg um að andsvör hennar muni skýra málið og þoka því áfram.

„Það er mjög lógískt þetta ferli. Hann kemur með þessa niðurstöðu og svo fáum við tækifæri til að gera athugasemdir eða koma með eitthvað frekar inn í það. Og já, ég er mjög bjartsýn, því nú er alveg ljóst hverju þarf að bæta við og núna verður það bara gert. Því forsendurnar fyrir endurupptöku eru alveg fyrir hendi,“ segir hún.

Erla segist ekki vera farin að horfa svo langt fram í tímann að hún sjái fyrir sér að málinu ljúki með neitun í vetur.

„Nei, ég vil nú bara ennþá trúa því að við finnum leið til að ljúka þessu og koma þessu öllu í ljósið; út úr þessu myrkri. Og ég hef enn trú á því að við búum yfir nægilegum hæfileikum og þroska til að gera það. Þannig að nei, ég hugsa ekki lengra en það,“ segir hún og bætir við: „En ég get aldrei hætt“.

- Sér hún fyrir sér hvernig baráttan myndi þá breytast eftir „Nei“?

„Nei, það er eitthvað sem ég myndi takast á við þegar að því kæmi,“ svara hún. Sú hugsun sé of myrk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert