Samtals fóru um 91 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu í maí á þessu ári samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 24.300 fleiri en í maí á síðasta ári. Aukningin á milli ára nemur 36,4%. Fram kemur í fréttatilkynningu að aukning hafi verið milli ára alla mánuði frá áramótum eða 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar, 26,8% í mars og 20,9% í apríl.
Tæplega þrír af hverjum fjórum ferðamönnum í maí árið 2015 voru af tíu þjóðernum segir í tilkynningunni. Bandaríkjamenn hafi verið fjölmennastir eða 22,3% af heildarfjöldanum en Bretar hafi komið næstir eða 11,8% af heildarfjölda. Því næst hafi Þjóðverjar (7,4%) fylgt, Norðmenn (6,5%), Svíar (5,7%), Frakkar (5,1%), Kanadamenn (4,9%), Danir (4,4%), Hollendingar (2,8%) og Pólverjar (2,7%). Bandaríkjamönnum hafi fjölgað mest á milli ára ásamt Bretum, Þjóðverjum og Kínverjum. þessar fjórar þjóðir hafi borið uppi um 58% aukningu ferðamanna í mánuðinum.
„Ferðamönnum í maí hefur fjölgað jafnt og þétt frá því Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli árið 2002, með örfáum undantekningum. Heildarfjöldi ferðamanna í maímánuði hefur nærri fjórfaldast frá árinu 2002 og munar þá mestu um aukningu N-Ameríkana sem hafa meira en fimmfaldast og þeirra sem flokkast undir annað sem hafa nífaldast. Ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu hafa á sama tíma nærri fjórfaldast, Bretar nærri þrefaldast og Norðurlandabúar ríflega tvöfaldast en hlutdeild þeirra síðastnefndu í maímánuði hefur minnkað með árunum,“ segir ennfremur.
Þá segir að um 41 þúsund Íslendingar hafi farið utan í maí eða um 4.500 fleiri
en í maí árið á undan.