„Það gerðist í raun ekki neitt á þessum fundi. Við upplifum stöðuna sem svo að við eigum nú í einhvers konar sýndarviðræðum við ríkið,“ segir Páll Halldórsson, formaður samninganefndar Bandalags háskólamanna (BHM), en fundi þeirra við samninganefnd ríkisins lauk í kvöld.
Páll segir afstöðu samninganefndar ríkisins koma sér verulega á óvart. „Starfsemi ríkisins er að nokkru leyti undir, þ.e. að ríkið geti mannað stöður innan heilbrigðisþjónustunnar og víðar með þeim hætti sem sómasamlegt er,“ segir hann og bendir á að á fundinum hafi BHM lagt fram tillögur til lausnar deilunni en þeim hafi hins vegar verið hafnað líkt og fyrri tillögum.
Að sögn Páls hefur ekki verið boðað til nýs fundar. Spurður hvort slíkt sé ekki áhyggjuefni kveður hann já við. „Það er vissulega áhyggjuefni. Og þetta verður bráðum orðið grafalvarlegt.“
Í tilkynningu sem BHM sendi frá sér að fundi loknum kemur m.a. fram að verulegrar reiði og óþreyju sé farið að gæta í röðum félagsmanna. Hafa um þriðjungur geislafræðinga á Landspítalanum sagt upp störfum auk þess sem fjöldi ljósmæðra hefur þegar sótt um störf erlendis, einkum á Norðurlöndunum. Sömu sögu er að segja af öðrum stéttum, s.s. dýralæknum.
„Það er mikil reiði [í okkar félagsmönnum]. Við höfum fengið spurnir af því að fólk er að segja upp störfum eða hugleiða slíkt. Það er því mikið óþol í okkar fólki.“ Aðspurður segir hann félagsmenn BHM hreinlega vera að gefast upp á stöðunni.
Páll segir því stefna í algert neyðarástand á Landspítalanum í haust sökum þess að mannskapurinn er á förum.