Frá því að Arion banki og Íslandsbanki hurfu að mestu leyti úr eigu íslenska ríkisins hefur eigið fé þeirra vaxið um rúma 200 milljarða króna og nýir eigendur hafa fengið tugi milljarða í arðgreiðslur af rekstri þeirra yfir sama tímabil.
Þegar ríkissjóður framseldi bankana í árslok 2009 á grundvelli samninga sem gerðir voru fyrr á því ári, mátu samningsaðilar virði þeirra á rúma 130 milljarða, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í ViðskiptaMogganum í dag.
Allt kapp var lagt á að losa fljótt um eignarhluti ríkisins í bönkunum og segir þáverandi fjármálaráðherra að það hafi reynst mikilvægt til að minnka skuldir ríkissjóðs. Ríkisendurskoðun, Bankasýsla ríkisins og hæstaréttarlögmaður sem Morgunblaðið ræddi við telja að skort hafi á lagaheimild til framsalsins á þeim tíma sem það var staðfest með samningum við slitabúin.