Framlag hvers starfsmanns Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum til hins opinbera og lífeyrissjóða á síðasta ári var 700 þúsund krónur á mánuði árið um kring, samtals 2.872 milljónir króna.
Þetta kom fram á aðalfundi VSV sem haldinn var á þriðjudag en fyrirtækið lét KPMG reikna út skattaspor fyrirtækisins.
Samkvæmt útreikningum renna 41,5 prósent af verðmætasköpun fyrirtækisins umfram rekstrarkostnað og fjármagnskostnað til ríkis og sveitarfélaga, 8 prósent til lífeyrissjóða, 35,5 prósent til launafólks í vinnu hjá VSV og 15 prósent til hluthafa.
„Það ber líka að hafa það í huga að um helmingur teknanna fer í rekstrarkostnað,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV, í samtali í Morgunblaðinu í dag.