Hiti í hlýsjónum sunnan og vestan við Ísland reyndist lægri í árlegum vorleiðangri Hafrannsóknastofnunar sem lauk 30. maí síðastliðinn en undanfarin vor. Þetta kemur meðal annars fram í fréttatilkynningu frá stofnuninni. Þarf að fara aftur til ársins 1997 til að finna samsvarandi hita að vori vestan við landið.
„Selta hafði hins vegar hækkað lítillega á þessum slóðum frá því sem lægst hefur verið síðustu þrjú árin. Almennt var kaldara í efri lögum sjávar frá Suðausturlandi og vestur um fyrir Vestfirði. Lækkun hita í efri lögum sjávar á þessu svæði nemur um 1-1.5 °C og er nú víðast undir langtímameðaltali fyrir þennan árstíma á þessu svæði,“ segir ennfremur. Innflæði hlýsjávar inn á Norðurmið hafi náð suatur fyrir Siglunes.
„Hiti og selta í efri lögum sjávar úti fyrir vestanverðu Norðurlandi voru nærri meðallagi, en hafði hvort tveggja lækkað frá fyrra ári. Á landgrunni úti fyrir Norðausturlandi var sjávarhiti um meðallag. Hiti í Austur-Íslandsstraumi yfir landgrunnshlíðum norðaustur af landinu var lægri en á síðasta ári en yfir langtímameðaltali og selta hafði hækkað nokkuð frá fyrra ári. Á landgrunni austan við landið var sjávarhiti og selta um eða yfir meðallagi.“
Farið var í leiðangurinn á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni en hann var liður í langtímavöktun á ástandi sjávar, næringarefnum, gróðri og átu á hafsvæðinu við Ísland. Voru gerðar athuganir á um 110 rannsóknastöðvum umhverfis landið. Bæði á landgrunninu og utan þess.