„Lögbundin heimild til að valda skaða“

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Verkföll grafa undan öryggi og lífsgæðum deilenda en jafnframt samfélaginu í heild. Verkföll eru í raun lögbundin heimild til þess að valda þriðja aðila skaða. Þegar slík heimild er til staðar er mikilvægt að líka sé til staðar ferli sem minnkar líkurnar á því að til verkfalla komi, þannig að hægt sé að stilla saman þessa strengi áður en til slíks þarf að koma.“

Þerra sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag. Hann fagnaði þeim orðum Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra á þingi í morgun að vinnumarkaðsmódelið sem notast hefði verið við hér á landi til þessa væri í raun að hruni komið og að taka þyrfti upp nýtt fyrirkomulag að norrænni fyrirmynd. Jón rifjaði upp að fyrir tveimur árum hafi verið samstaða með stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins í þessum efnum og vinna hefði verið hafin í tengslum við það. Spurði Jón ráðherann hvort frumvarp í þessa veru væri væntanlegt inn í þingið.

„Það má segja að fyrstu skrefin hafi með formlegum hætti verið stigin með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga fyrir nokkrum dögum. Þar opnuðum við á það að hefja samstarf um efnahagsráð og við horfum til þess sem fyrsta merkisins um að hreyfing sé að komast á þessa hluti. En á endanum verður þetta að vera samstarfsverkefni. Þetta er samstarfsverkefni stjórnvalda, og þá á ég við ríki og sveitarfélög, og aðila vinnumarkaðarins, þeirra stéttarfélaga sem þar eru starfandi og vinnuveitenda,“ sagði Bjarni.

Gerbreytt hlutverk ríkissáttasemjara

Það jákvæða við stöðuna í dag væri það að samstaða virtist vera um að æskilegt væri að færa sig nær norræna módelinu. Það væri sameiginlegur grunnur. Vandinn væri hins vegar sá að of margir væru þeirrar skoðunar í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður að fyrst yrðu þeir að fá ákveðna leiðréttingu áður en hægt væri að stíga skref í þessa átt. „Ef menn ætla að ganga þá braut til enda þá er það eins og langavitleysa, það mun aldrei verða búið að ganga frá síðustu leiðréttingunni. Aldrei. Við þurfum að tala um þetta opinskátt og viðurkenna að það sé svo eftirsóknarvert að breyta fyrirkomulaginu að einhvers staðar verði að gefa eitthvað eftir.“

Tilgangur efnahagsráðs væri að vera samráðsvettvangur þar sem komist yrði sameiginlega að niðurstöðu um það svigrúm sem væri til staðar. „Ég sé fyrir mér gjörbreytt fyrirkomulag á störfum ríkissáttasemjara í framtíðinni, að hann hafi skýrara hlutverk, að honum sé til dæmis ætlað að fylgja þessu merki og hafi ekkert umboð til að fara út fyrir það þegar það hefur verið fundið. Við þurfum að finna lausnir á því misvægi sem er á milli réttinda á opinberra markaðnum og almenna markaðnum.“

Eitt af því sem stefna ætti að í framtíðinni væri að opinberi geirinn hefði einhvers konar launaþróunartryggingu. „Það hefur verið eitt af vandamálunum sem við höfum glímt við að launaskriðið hefur fyrst og fremst verið á almenna markaðnum og opinberir starfsmenn hafa viljað semja sig fram fyrir launaskriðið á almenna markaðnum í hvert og eitt sinn.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert