„Það er oft sagt um stöðuna í þinginu núna að þetta sé skipulagsleysi að kenna en eins og ég sé þetta þá höfum við með mjög skipulögðum hætti valdið uppnáminu. Það er að segja: Það eru þessi átök á milli meirihluta og minnihluta í þinginu, og reglurnar um það hvernig þau samskipti fara fram, sem að skipulega hafa sett þingið í þessa stöðu. Ekki bara núna heldur á mörgum undanförnum árum þar sem menn eru þvingaðir til þess að setjast niður undir lok þingstarfa og komast að samkomulagi á örfáum fundum.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag. Tilefnið var fyrirspurn frá Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar, sem lýsti áhyggjum sínum af stöðunni á Alþingi og hvernig til stæði að ljúka þinginu fyrir sumarleyfi. Innti hann ráðherrann um sýn hans í þeim efnum í ljósi þess að Bjarni hefði kallað fyrir ekki alls löngu eftir umbótum þegar kæmi að störfum þingsins.
Bjarni sagði lausnina í þessum efnum að hans mati felast í því að móta nýtt fyrirkomulag til þess að ramma betur inn valdahlutfallið á milli meirihlutans og minnihlutans. „Að sjálfsögðu hljótum við að vera sammála um það að meirihlutavilji þingsins verður að fá að koma fram. Á sama tíma erum við sammála um það að rödd minnihlutans verður líka að fá að heyrast. Mín skoðun er sú að forseti þingsins eigi að hafa meiri völd til þess að höggva á hnútinn þegar menn hafa ekki komist að niðurstöðu.“
Það þýddi hins vegar ekki að forseti Alþingis ætti ávallt að vera í fanginu á meirihlutanum hverju sinni heldur væri grundvallarforsenda að staðið væri þannig að kjöri hans að sátt ríkti um störf hans þannig að honum væri treyst til þess að vega og meta mál þegar á þyrfti að halda.
„Að öðru leyti þurfum við að semja reglur sem koma í veg fyrir að þessi staða komi ítrekað upp. En síðan þegar öllu er á botninn hvolft þá munu engar reglur eða breytingar á þeim leysa þetta einar og sér. Það þarf að sjálfsögðu að vera samstaða um það á þinginu og það er kannski atriði sem hver og einn þingmaður þarf að líta í eigin barm.“
Guðmundur sagðist sammála Bjarna að miklu leyti. Styrkja þyrfti stöðu forseta Alþingis. Málskotsréttur minnihlutans væri mikilvægur og koma í veg fyrir að mál kæmu of seint inn í þingið. Kallaði hann eftir yfirgripsmiklu og góðu samtali um það með hvaða hætti mætti bæta störf þingsins.