Vinnumarkaðsmódelið sem notað hefur verið á Íslandi er gallað og í raun að hruni komið. Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag. Leysa þyrfti yfirstandandi kjaradeilur í einhverjum samræmi við það svigrúm sem til staðar væri í efnahagskerfinu en verkefni næstu ára væri að koma vinnumarkaðsmálum landsins inn í nýtt kerfi í anda þess sem gerðist á hinum Norðurlöndunum.
Bjarni var með orðum sínum að bregðast við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, sem lýstu alvarlegum áhyggjum sínum af yfirstandandi kjaradeilum í heilbrigðiskerfinu. Sakaði hann ríkisstjórnina um að skella skollaeyrum við kröfum stétta innan þess eins og hjúkrunarfræðinga og sagði ráðleysi ríkja hjá stjórninni gagnvart deilum á vinnumarkaði. Bjarni vísaði þessu á bug.
„Við höfum lagt upp með það í þessari viðræðulotu að það sé reynt að ná samningum sem svigrúm er fyrir í efnahagskerfinu. Sem setja ekki aðrar viðræður í uppnám eða leggja of mikið þrýsting á efnahagskerfið. Að þær séu ekki í takti við það sem er að gerast almennt í kjaramálum í landinu á sama tíma og við viljum að það komist skýrt til skila til þessara stétta að við berum virðingu fyrir þessum störfum, við teljum þau mikilvæg og við hörmum það mjög að menn séu að horfa til annarra landa vegna þess að kjörin á Íslandi séu ekki nægjanlega góð,“ sagði ráðherrann.
Bjarni benti á að laun hefðu hækkað verulega hjá hinu opinbera á síðasta ári eða um 7-8% á sama tíma og verðbólga hafi verið rétt um 1%. Sömuleiðis hafi kaupmáttur launa í opinbera geiranum stóraukist á síðasta ári en það virtist hins vegar ekki vera nóg. Komið væri að samningaborðinu og sagt að leiðrétta þyrfti kjör viðkomandi stétta vegna þess að þær hefðu dregist aftur úr öðrum síðasta áratuginn. Bjarni sagði að leiðréttingar tíu ár aftur í tímann væri einfaldlega ekki raunhæfar.
„Það geta ekki allir endalaust fengið leiðréttingar gagnvart einhverjum öðrum viðmiðunarhópum. Þetta er fyrir mig fyrst og fremst til vitnis um að vinnumarkaðsmódelið sem við erum að nota á Íslandi er gallað. Það er í raun og veru alveg að hruni komið. Þessi ítrekuðu verkföll, þetta endalausa höfrungahlaup, þessi endalausi samanburður sem verður til þess að enginn getur samið vegna þess að hann er orðinn skotskífa fyrir þann næsta. Þetta sýnir okkur að við þurfum að færast yfir í nýtt módel, meira í átt að norræna módelinu, og það eru verkefni næstu ára. Við verðum að fá niðurstöðu í þessa kjaradeilu sem er í einhverju samræmi við það svigrúm sem er til staðar.“