Minnihlutinn á Alþingi gerir ágreining út af hverju einasta máli í þinginu og frumvarp um opinber fjármál er engin undantekning. Þetta sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sem sagðist kalla það „minnihlutaofbeldi“. Minnihlutinn segir málið hafa verið tekið úr nefnd í flýti og ósætti.
Við upphaf þingfundar í morgun harmaði Vigdís að lögð hafi verið fram tvö nefndarálit úr fjárlaganefnd um frumvarp um opinber fjármál sem fram að því hefði verið mikil sátt um og unnið hafi verið að með faglegum en ekki pólitískum hætti.
Fulltrúar minnihluta nefndarinnar sögðu hins vegar að vinnslu málsins hafi ekki verið lokið og taka þyrfti meiri tíma til að fara yfir það. Oddný G. Harðardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, sagði að málið hafi verið rifið úr nefndinni í flýti og ósætti. Óskaði hún þess við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, að málið yrði afgreitt fullbúið í september.
Bjarni sagði ljóst að víðtæk sátt væri um málið. Hann reyndi sem minnst að hafa áhrif á hvernig nefndir höguðu sínum málum. Hann hafi vonast til þess að þingveturinn hefði dugað til að klára málið. Ekki væri búið að klára samtal um að ná betur saman um að leiða frumvarpið í lög. Á meðan það væri enn í gangi útilokaði hann ekki neitt.
Vigdís sagði málið hafa verið til umræðu í fjárlaganefnd í bráðum tvö heil ár og minnihlutinn kvarti yfir að fullbúið mál sé tekið úr nefndinni.
„Nú er það orðið svo að minnihlutinn gerir ágreining út af hverju einasta máli hér í þinginu. Þetta er engin undantekning og ég kalla þetta minnihlutaofbeldi. Það er ekki hægt að segja annað,“ sagði Vigdís.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, benti hins vegar á að málið hafi verið tekið úr nefndinni og spurði hvernig það gæti talist ofbeldi minnihlutans. Sagðist hún vonast til þess að málið yrði endurskoðað þar sem samstaða væri um það en minnihlutinn hafi viljað skoða ákveðin atriði betur.