Sjómannadagurinn er á morgun og verða hátíðarhöld víðs vegar um landið í tilefni af því. Karl V. Matthíasson, sóknarprestur í Guðríðarkirkju í Grafarholti, hefur látið flytja trébát að kirkjunni og verður með sjómannadagsmessu.
„Ég er nú gamall sjóari og mér hefur alltaf fundist sjómannadagurinn mjög hátíðlegur og sérstaklega til að undirstrika tengingu dagsins við kirkjuna og líf sjómanna fyrr á tíð,“ sagði Karl í samtali við mbl.is.
„Ég fékk þennan gamla bát, þetta er feræringur, og messan verður tileinkuð sjómönnum.“ Karl kom bátnum þó ekki einn að kirkjunni. „Faxaflóahafnir voru svo vinsamlegar að hjálpa mér við þetta og ég kann þeim kærar þakkir fyrir.“
Auk þess að vera prestur er Karl með skipstjórnarréttindi á litla báta.
Eldri deild Karlakórs Reykjavíkur syngur og að messu lokinni verður boðið upp á kaffi og kleinur. „Tveir gamlir sjómenn munu lesa ritningarlestra í messunni.“