Frumvarp um þrengingu gjaldeyrishafta í aðdraganda afnáms þeirra var samþykkt á þingi í kvöld með 56 atkvæðum. Einn sat hjá, en afgreiðsla málsins tók aðeins um 47 mínútur. Fjörugar umræður sköpuðust um málið á þingi, en Össuri Skarphéðinssyni og Steingrími J. Sigfússyni var heitt í hamsi og veltu því upp hvort „leki hefði orðið úr herbúðum ríkisstjórnarinnar“ og valdið því að keyra þyrfti málið í gegn á sunnudagskvöldi.
Frétt mbl.is: Leki úr herbúðum ríkisstjórnarinnar?
Afgreiðsla málsins gekk hratt fyrir sig þar sem ekki þurfti að vísa málinu til efnahags- og viðskiptanefndar eftir fyrstu og aðra umræðu eins og kveðið er á um í þingskapalögum. Þetta kom til vegna þess að frumvarpið var lagt fram af nefndinni og var meðferð hennar með það því lokið.
Frétt mbl.is: Frumvarpið gengur ekki til nefndar
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að lagabreytingunum sé ætlað að bregðast við þeim sniðgönguhættum sem skapast við losun fjármagnshafta til þess að standa vörð um stöðugleika í gengis- og peningamálum.
Þar segir að meginvandinn við losun fjármagnshafta felist í hættu á útflæði fjármagns um leið og höftin eru losuð, en mikið útflæði á stuttum tíma, samanborið við mögulegt innflæði, gæti á ný leitt til greiðslujafnaðarvanda og gengisfalls krónunnar vegna einhliða álags á gjaldeyrismarkað.
Frétt mbl.is: Gátu sniðgengið gjaldeyrishöftin
Í frumvarpinu er því lagt til að lögaðilum verði aðeins heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri vegna endurgreiðslu lána eða greiðslna áfallinna ábyrgða innan samstæðu hafi lán eða ábyrgð verið veitt í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti eða lán uppfyllir skilyrði 3. mgr. 13. gr. g.
Frumvarpinu er þannig ætlað að mæta þeim hættum sem kunna að vera til þess fallnar að grafa undan markmiðum aðgerða stjórnvalda um losun fjármagnshafta en samkvæmt heimildum mbl.is verða tvö frumvörp um losun gjaldeyrishafta kynnt fyrir þingflokkunum í fyrramálið, kynnt fyrir almenningi og lögð fyrir Alþingi.
Guðmundur Steingrímsson sló á létta strengi á þingi í kvöld og sagði væntingar fólks til fundarins eflaust hafa verið of miklar, eða það búist við að „stærra mál“ væri á dagskrá. Sagði hann að þær fjölskyldur sem settust við sjónvarpið með popp hefðu eflaust orðið fyrir vonbrigðum.