Vara við vindhviðum á morgun

Vindaspá kl. 16 á morgun, 8. júní.
Vindaspá kl. 16 á morgun, 8. júní.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands eru horfur næsta sólarhringinn þannig að spáð er vestan og suðvestan 3-10 m/s, en 8-13 NV-til seinni partinn. Súld með köflum S- og V-lands og bætir í úrkomu þar með kvöldinu, en annars léttskýjað. Hvessir í nótt og suðvestan 13-20 og víða talsverð rigning á morgun, hvassast NV-til, en hægara og úrkomulítið NA-til. Hiti 6 til 13 stig, svalast á Vestfjörðum.

Í athugasemd frá veðurfræðingi, sem birt var á vef Veðurstofunnar kl. 6.29 í morgun, segir að búast megi við talsveðri rigningu og leysingu á Vestfjörðum og Ströndum á morgun. Einnig megi reikna með snörpum vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Ströndum og NV-landi á morgun. Varað er við akstri með aftanívögnum á þeim slóðum.

Þá hefur verið gefin út viðvörun þar sem búist er við stormi (vindhraða hærri en 20 m/s) á miðhálendinu á morgun. Viðvörunin gildir þar til kl. 18 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert