„Dagurinn markar mikil tímamót“

Bjarni Benediktsson á blaðamannafundinum í dag.
Bjarni Benediktsson á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Golli

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að dagurinn í dag marki mikil og ánægjuleg tímamót í efnahagslegu tilliti. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni hafa viðtæk áhrif á allan almenning og atvinnustarfsemi í landinu. Horfurnar séu bjartar.

„Það er auðveldara að kynna til sögunnar höft heldur en að aflétta þeim. Það eru fáir sem muna það í dag, en við trúðum því að þegar höftin voru leidd í lög að við myndum ná að losa þau innan sex mánaða,“ sagði Bjarni á blaðamannafundi í Kaldalónssal í Hörpu í dag. Hins vegar hafi verkefnið verið stærra og flóknara en ráðamenn höfðu gert sér í hugarlund.

„Viðspyrna okkar á undanförnum árum hefur verið fordæmalaus en á móti komu fordæmalausar aðstæður,“ sagði Bjarni og vísaði til falls fjármálakerfisins haustið 2008. Bankarnir hafi verið gríðarstórir og fall þeirra því haft mikil áhrif.

Bjarni sagði það hafa orðið ljóst snemma í ferlinu að lausnin þyrfti að vera efnahagslega raunhæf. Mikil vinna hefði átt sér stað á undanförnum árum, alveg frá því að ríkisstjórnin áttaði sig fyrst á því, er hún tók við völdum vorið 2013, hversu umfangsmikið verkefnið var. Reynt hefði verið að nálgast vandamálið með því að koma fram með heildstæða lausn.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær að leggja fyrir Alþingi tvö frumvörp fjármálaráðherra sem saman leggja grundvöll að heilstæðri aðgerðaáætlun um afnám fjármagnshafta. Bjarni benti þó á að frumvörpin tvö gæfu ekki heildstæða mynd af aðgerðunum. Skoða þyrfti fleiri þætta málsins.

Heildarumfang vandans sem tekið er á í aðgerðaáætlun stjórnvalda nemur um 1.200 milljörðum króna, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Eignirnar felast í kórnueignum slitabúa fallinna fjármálastofnana að fjárhæð 500 milljarða, kröfum slitabúanna í erlendri mynt gagnvart innlendum aðilum að fjárhæð 400 milljarða og aflandskrónum í eigu erlendra aðila að fjárhæð 300 milljarða.

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á fundinum í Hörpu.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á fundinum í Hörpu. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert