Mun skerða fréttaþjónustu í 6 daga

Ríkisútvarpið.
Ríkisútvarpið. mbl.is/Kristinn

Ríkisútvarpið skrifaði undir fyrirtækjasamning við félagsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands sem starfa hjá fyrirtækinu í apríl. Yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna samþykkti samninginn í atkvæðagreiðslu. Þrátt fyrir þetta blasir við að verkfallsaðgerðir þær sem RSÍ hefur boðað í baráttu sinni um almennan samning fyrir rafiðnaðarmenn, bitni verulega á þjónustu við landsmenn en þorri þeirra nýtir sér þjónustu RÚV daglega. Verkfallið myndi raska og skerða fréttaþjónustu og dagskrá bæði í sjónvarpi og útvarpi í sex sólarhringa, dagana 10. – 16. júní. SA fer með samningsumboð í deilunni og er RÚV því ekki beinn samningsaðili að deilunni nú.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.

RÚV sótti um undanþágur til að geta sinnt fjölbreyttu þjónustuhlutverki sínu við landsmenn, þrátt fyrir verkfall félagsmanna RSÍ. Þær snéru fyrst og fremst að mikilvægu öryggishlutverki Ríkisútvarpsins, fréttaþjónustu og lágmarksdagskrá í sjónvarpi og útvarpi. Enn fremur var sótt um undanþágur fyrir beinum útsendingum frá fjórum „mikilvægum landsleikjum í fótbolta og handbolta, afhendingu sviðslistaverðlauna Grímunnar, tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, guðsþjónustu og fleira en allir þessir dagskrárliðir eru áformaðir í verkfallsvikunni og ætla má að stór hluti þjóðarinnar sameinist fyrir framan skjáinn til að fylgjast með eða hlýða á í útvarpi,“ segir í tilkynningu RÚV.

Í hádeginu í dag barst svar frá RSÍ þar sem flestum undanþágubeiðnum var hafnað, segir í tilkynningu RÚV. RÚV hefur óskað eftir því við undanþágunefnd RSÍ að endurskoða ákvörðun sína og veiti rýmri heimildir en nú hafa verið samþykktar. Vonast er til þess að undanþágur verði rýmkaðar vegna ríkra hagsmuna fjölmargra landsmanna og félagasamtaka. Í arpíl síðast liðnum var veitt undanþága fyrir beinni útsendingu landsleiks og í því ljósi hefur verið óskað eftir því að til samræmis verði veittar undanþáguheimildir fyrir beinum útsendingum nú.

Yfirvofandi verkfall myndi hafa mest áhrif á dagskrá og þjónustu sjónvarps og Rásar 1 en minnst áhrif á þjónustu Rásar 2. Vefurinn starfar með óbreyttu sniði, barnaefni í sjónvarpi verður á sínum stað sem og táknmálsfréttir. „Fréttastofa RÚV stendur vaktina allan sólarhringinn sem endranær, flytur fréttir eftir því sem kostur er og er reiðubúin til að miðla mikilvægum upplýsingum til landsmanna, í útvarpi og vef og eftir því sem færi gefst og undanþágur heimila í sjónvarpi.  Ríkisútvarpið mun kappkosta að sinna hlutverki sínu sem best það getur innan þess ramma sem aðstæður leyfa og vonast eftir góðu samstarfi við alla aðila málsins,“ segir í tilkynningu frá RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert