BHM í verkfalli í tíu vikur

Félagsmenn BHM tóku þátt í mótmælum fyrir utan Stjórnarráðið í …
Félagsmenn BHM tóku þátt í mótmælum fyrir utan Stjórnarráðið í síðustu viku. mbl.is/Eggert

Í dag hefst 10. vika verkfalla félagsmanna BHM sem starfa hjá ríkinu. Eins og fram hefur komið sleit ríkissáttasemjari samningafundi BHM og ríkisins fyrir sjö dögum. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar.

Eftir að ríkið vísaði deilunni til ríkissáttasemjara hafa verið haldnir 22 fundir. Í samantekt sem BHM sendi fjölmiðlum fyrr í dag er því haldið fram að ríkið hafi ekki komið að alvöru að samningaborðinu og því hefur viðræðunum verið lýst sem sýndarviðræðum.

Sáttanefnd leysir ekki málið

„Margar spurningar hafa vaknað vegna þessa ástands. Hvernig stendur á því að ríkið lagði ekki allt kapp á að ná samningum áður en verkföll skullu á með fullum þunga fyrir 9 vikum? Af hverju hafa aðilar í þessari kjaradeilu ekki náð að semja? Hvernig getur staðið á því að verkföll háskólamenntaðra hjá ríki standa enn þegar fyrir liggur að aðilar á almennum vinnumarkaði hafa í nánast öllum tilvikum náð að semja sín á milli um að fresta boðuðum verkfallsaðgerðum og ljúka kjarasamningum í framhaldinu,“ er spurt í samantekt BHM.

Á föstudaginn bar til tíðinda í deilunni þegar að ríkisstjórnin lagði til að skipuð yrði sáttanefnd í deilunni og virkjað ákvæði í lögum frá 1938, sem aldrei hefur verið notað. Sameiginleg niðurstaða félags- og húsnæðismálaráðherra, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra og BHM var að sérstök sáttanefnd myndi ekki leysa málið heldur yrði hún til þess að draga lausn deilunnar enn frekar á langinn.

Fordæmi sett með samningum lækna og framhaldsskólakennara

Í samantektinni kemur fram að ríkið hafi ítrekað sagt að ekki sé hægt að gera samninga frábrugðna samningum á almennum markaði. „Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt að hann vilji ekki að ríkið sé leiðandi á vinnumarkaði og segist vilja innleiða hér á landi svokallað norrænt líkan. Samninganefnd ríkisins hefur gert forsendur í kjarasamningum almenna vinnumarkaðarins að sínum,“ segir í samantekinni. „Þetta er athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að nýverið var gengið frá kjarasamningum við tvo háskólamenntaða hópa hjá ríkinu, framhaldsskólakennara annars vegar og lækna hins vegar, sem voru verulega frábrugðnir samningum á almennum vinnumarkaði. Þar setti ríkið fordæmi sem ekki er hægt að líta framhjá.“

Kemur jafnframt fram að BHM hafi ítrekað lagt fram ýmsar leiðir til lausnar, byggðar á sameiginlegum hagsmunum ríkisins og háskólamenntaðra starfsmanna þess og teygt sig í átt að áherslum samninganefndar ríkisins. Þar kemur ennfremur fram að BHM hafi tekið jákvætt í að gera samning til fjögurra ára og lýst sig reiðubúin til að taka fyrstu skref í átt að „norrænu líkani“ við kjarasamningagerð.

Ólíkur veruleiki

Kröfur BHM eru margþættar. Fyrst og fremst er þess krafist að nýr kjarasamningur tryggi að menntun sé metin til launa. Einnig er þess krafist að nýliðun starfsfólk og mönnun hjá stofnunum ríkisins verði tryggð og samkeppnishæfi sérfræðiþjónustu hjá ríki. Er leitast eftir því að nýr kjarasamningur auðveldi ríkinu og stofnunum þess að uppfylla skyldur sínar sem vinnuveitandi og geri stofnunum kleift að halda í hæft starfsfólk og stuðli þannig að gæðum opinberrar þjónustu.

Í samantektinni er bent á „ólíkan veruleika“ starfsmanna á almennum markaði og hjá ríki varðandi launaframgang og samningsrétt.

Þar kemur m.a. fram að starfsmenn ríkisins fái engin launaviðtöl eins og starfsmenn á almennum markaði. Jafnframt er fólki á almennum markaði boðið markaðslaun á meðan launataxtar ríkisins eru „njörvaðir niður“ í kjarasamningum. Þar að auki eru stofnanir ríkisins undir stöðugri hagræðingarkröfu og þurfa að semja um launaröðun starfsmanna í stofnanasamningum. Samkvæmt samantektinni frá sérfræðingar á almennum markaði að semja um laun sín á meðan sérfræðingar ríkisins fá laun samkvæmt töxtum.

676 félagsmenn í verkfalli 

Alls eru 676 félagsmenn BHM í verkfalli. Fyrstu verkföllin hófstu 7. apríl en þá fóru 560 félagsmenn í verkfall. Þeir eru geislafræðingar, lífeindafræðingar, ljósmæður á Landspítalanum, lögfræðingar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og náttúrufræðingar á Landspítalanum.

Tveimur dögum seinna, eða 9. apríl, fóru sautján ljósmæður á Sjúkrahúsinu á Akureyri í ótímabundið verkfall.

20. apríl hófust verkföll 99 meðlima BHM. Þeir eru náttúrufræðingar á Matvælastofnun, háskólamenn á matvæla- og næringarsviði á Matvælastofnun og Dýralæknafélag Íslands. Sama dag hófst tímabundið verkfall starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins. Þeirra verkfall hófst 20. apríl og var til 8. maí. Ótímabundið verkfall þeirra hófst 2. júní.

Verkfallsaðgerðir BHM hafa nú staðið yfir í tíu vikur.
Verkfallsaðgerðir BHM hafa nú staðið yfir í tíu vikur.
BHM og samninganefnd ríkisins hafa fundað hjá ríkissáttasemjara 22 sinnum.
BHM og samninganefnd ríkisins hafa fundað hjá ríkissáttasemjara 22 sinnum. mbl.is/Kristinn
Samninganefnd BHM hjá ríkissáttasemjara.
Samninganefnd BHM hjá ríkissáttasemjara. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert