„Glæsileg niðurstaða“ ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnarinnar verður minnst sem ríkisstjórnarinnar sem lækkaði skuldir heimilanna, einstaklinga og landsins. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag um áform ríkisstjórnarinnar um afnám fjármagnshaftanna. Til stendur að hundruð milljarða króna sem renni til ríkissjóðs vegna afnáms haftanna verði notaðir til þess að lækka skuldir ríkisins.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að ef eitthvað mætti kalla glæsilega niðurstöðu ætti það við um áform ríkisstjórnarinnar. Vísaði hann þar til ummæla Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og þáverandi fjármálaráðherra, árið 2009 um fyrsta Icesave-samninginn.

Fleiri þingmenn tóku til máls og lýstu ánægju sinni með áform ríkisstjórnarinnar. Nokkrir þingmenn stjórnaranstöðunnar sáu ástæðu til þess að hrósa Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra sérstaklega auk Seðlabanka Íslands. Þá nefndi Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, einnig þá Árna Pál Árnason og Steingrím sem voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn einnig í því sambandi. Þingmönnum stjórnarandstöðunnar var annars nokkuð tíðrætt um að rekja mætti upphaf aðgerða ríkisstjórnarinnar til síðasta kjörtímabils.

Þingmenn, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, lögðu ennfremur áherslu á mikilvægi samstöðu þingmanna um þær aðgerðir sem farið yrði í til þess að aflétta höftunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert