„Mér fannst ég vera að upplifa sögulega stund, þegar greint var í gær frá áformum um afléttingu fjármagnshaftanna. Það er örugglega ekkert ofsagt um þýðingu þessara áforma,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, á Facebook-síðu sinni í dag um um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar vegna fjármagnshaftanna sem kynntar voru í gær.
Fyrirætlanirnar ganga út á að kröfuhafar föllnu bankanna þurfi að leggja fram tillögur að nauðasamningum fyrir árslok sem uppfylli skilyrði stjórnvalda svo hægt sé að veita undanþágur frá fjármagnshöftunum. Skilyrðin ganga einkum út á að þrotabúin verði að gefa eftir verulegan hluta eigna sinna til ríkissjóðs sem stöðugleikaframlag. Að öðrum kosti verði lagður 39% stöðugleikaskattur á búin.
Einar segir undirbúning áformanna hafa verið vandaðan, trúverðugan og faglegan enda mikið í húfi. Allir sem komið hafi að honum eigi miklar þakkir skildar. Bæði sérfræðingar, embættismenn og stjórnmálamenn.
„Þá var það mikið fagnaðarefni að þessum tillögum hefur verið ákaflega vel tekið. Jákvæð viðbrögð forystumanna stjórnarandstöðunnar á Alþingi sýna í verki að góð samstaða getur orðið um þetta mikla verkefni. Það skiptir miklu máli og styrkir okkur öll í þessari þýðingarmiklu vinnu í þágu þjóðarinnar.“
Forystumenn stjórnarandstöðunnar tóku vel í áform ríkisstjórnarinnar í umræðum á Alþingi í gær og samtölum við fjölmiðla.