Flutningaskip sem flytur hvalaafurðir frá Íslandi til Japans mun sigla norður fyrir Rússland, norðausturleiðina svokölluðu.
Þessi leið er 14.800 kílómetrum styttri en leiðin fyrir Góðrarvonarhöfða og samsvarar munurinn 11 ferðum um Hringveginn. Ekki er vitað til þess að þessi leið hafi áður verið farin með afurðir frá Íslandi, að því er fram kemur í umfjöllun um siglingu þessa í Morgunblaðinu í dag.
Hvalur hf. tók skipið Winter Bay á leigu til að flytja 1.800 tonn af hvalaafurðum til Japans. Skipið var lestað í byrjun maí en brottför þess frá Hafnarfirði dróst í tæpan mánuð vegna bilunar í vélbúnaði.