Tollar af mjólkurvörum lækki

Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi er lagt til að breytingar verði gerðar á opinberum stuðningi við mjólkurframleiðslu. Er lagt til að tollar verði lækkaðir, svo að framleiðslu grannlandanna verði samkeppnisfær við íslenskar mjólkurafurðir, og í framhaldi af því er lagt til að opinbert heildsöluverð á mjólkurvörum verði lagt af.

Þá leggur stofnunin jafnframt til að undanþágur mjólkurvinnslufyrirtækja frá samkeppnislögum verði felldar úr gildi. Í stað greiðslna úr ríkissjóði fyrir mjólkurframleiðslu innan greiðslumarks (framleiðslukvóta) komi annað hvort styrkir sem miðaðir verði við fjölda nautgripa og heyfeng, að ákveðnu marki, eða hreinir búsetustyrkir. Er einnigt lagt til að greiðslumark (framleiðslukvóti) verði aflagt.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leitaði til Hagfræðistofnunar sumarið 2014 varðandi úttekt á mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi, stöðu og horfum. Afrakstur þeirrar vinnu sem hófst í kjölfarið má finna í skýrslunni, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að lágmarksverð mjólkur til bænda hafi hækkað  miðað við almennt neysluverð síðan 2003. Heildsöluverð mjólkurvara hafi lækkað á sama tíma miðað við almennt neysluverð. Þá sé smásöluverð mjólkurvara lægra árið 2013 en 2003 miðað við verð á almennum neysluvörum. Með öðrum orðum hækkuðu mjólkurafurðir minna í verði en aðrar neysluvörur frá 2003 til 2013.

Þegar þróun verðs á einstökum mjólkurafurðum er borin saman við verð á einstökum tegundum annarrar matvöru kemur í ljós að um 70% af öðrum matvörum, sem til skoðunar eru, hækkuðu meira í verði en mjólkurafurðir.

Þá var á árunum 1986 til 1988 opinber stuðningur við íslenska bændur 5% af landsframleiðslu, að mati OECD, en hlutfallið var liðlega 1% árið 2013. Árin 1986 til 1988 var íslensk mjólk á bændaverði níu sinnum dýrari en innflutt mjólk hefði verið, að dómi OECD, en 2011-2013 var hún að jafnaði um 30% dýrari.

Árin 2011-2013 kostaði mjólk á bændaverði neytendur og íslenska ríkið 15½ milljarð króna á ári að jafnaði, en innflutt mjólk hefði kostað tæplega 7½ milljarð króna, með flutningskostnaði. Stuðningur ríkis og neytenda við framleiðsluna var með öðrum orðum um 8 milljarðar króna á ári, að því er segir í skýrslunni.

Skýrsla Hagfræðistofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert