Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag að ríkisstjórnirnar þrjár frá hruni hefðu allar tekið réttar ákvarðanir og staðið sig vel þegar kæmi að málefnum er varða gjaldeyrishöftin.
Fyrsta ríkisstjórnin, ríkisstjórn Geirs H. Haarde, hefði gert rétt í því að setja neyðarlög og síðan gjaldeyrishöft. „Það var rétt ákvörðun að setja gjaldeyrishöft. Það var ekkert annað að gera,“ sagði Steingrímur. Ástæðan væri ekki aðeins sú að snjóhengjan svonefnda hefði vofið yfir, heldur einnig vegna þess að nánast enginn gjaldeyri hafi verið í landinu. „Eru menn búnir að gleyma því?“
Hann sagði að næsta ríkisstjórn, ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, hefði í aðalatriðum haldið rétt á öllum hagsmunum Íslands. „Því verður ekki á móti mælt. Við gerðum það sem þurfti að gera til að geta að lokum leitt málið til farsællega lykta.
Loks mætti núverandi ríkisstjórn vel við una. Áætlun hennar um afnám fjármagnshafta væri vel unnin og vönduð.
Steingrímur sagðist sammála þeirri forsendu að slit föllnu bankanna, sem og það hvernig aflandskrónuvandinn verður leystur, eigi ekki að vera á kostnað gjaldeyrisstöðugleika í landinu eða íþyngja stöðu þjóðarbúsins.
Hann sagði jafnframt mikilvægt að orðræðan yrði vönduð í umræðum á þingi.
„Menn tala hér um afnám fjármagnshafta í tengslum við þetta mál. Það er ekki það sem hér er á ferðinni,“ sagði hann. Nýkynntar aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru á hinn bóginn forsenda þess að hægt væri að rýmka höfin.
„Losun eða rýmkun fjármagnshafta í kjölfar aðgerðanna er það sem hér er um rætt.“