Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir bætta stöðu ríkissjóðs skapa skilyrði fyrir lægri skatta og einfaldara skattkerfi. Fram hefur komið að afnám hafta gæti stórbætt skuldastöðu ríkisins.
„Bætt staða ríkissjóðs mun skapa svigrúm fyrir áframhaldandi skattalækkanir en þær þarf að tímasetja mjög vel,“ segir Bjarni og nefnir lækkun tryggingagjalds, lægri álögur á einstaklinga og afnám tolla.
„Þrátt fyrir að við höfum þegar lækkað skatta umtalsvert verða lægri skattar áfram meðal forgangsmála okkar og það verður svigrúm á næstu árum til að gera enn betur.“
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, telur að boðuð útboðsleið vegna aflandskrónuvandans geti haft í för með sér mikið innstreymi gjaldeyris í landið. Það geti aftur ýtt undir eignaverð á Íslandi.
Það er hluti af áætlun um afnám hafta að lífeyrissjóðir fá að fjárfesta fyrir 10 milljarða á ári erlendis fram til ársins 2020, alls 60 milljarða.
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, telur að heimildir lífeyrissjóðanna muni ekki hafa teljandi áhrif á íslenskum markaði.