Buchheit fylgdi ný nálgun

Lee Buchheit og Glenn Kim, ráðgjafar íslenskra stjórnvalda, á fundi …
Lee Buchheit og Glenn Kim, ráðgjafar íslenskra stjórnvalda, á fundi með kröfuhöfum sem fór fram á Íslandi í fyrravetur. mbl.is/Kristinn

Banda­ríski lögmaður­inn Lee Buchheit, hjá lög­manns­stof­unni Cle­ary Gott­lieb Steen & Hamilt­on í New York, seg­ir aðspurður að það kæmi sér ekki á óvart ef áætl­un ís­lenskra stjórn­valda um af­nám hafta yrði notuð í kennslu­bók­um í framtíðinni. Verk­efnið hafi enda verið tröllaukið í sam­hengi við ís­lenskt hag­kerfi.

„Það leiddi af gríðarlegu um­fangi fjár­mála­hruns­ins á Íslandi að höft­in þurftu að vara leng­ur en nokk­ur hafði reiknað með. Við slík­ar aðstæður eru ekki mörg for­dæmi fyr­ir því að höft­um sé lyft Það kæmi mér því ekki á óvart ef nem­end­ur í alþjóðafjár­mál­um muni lengi nota þetta sem kennslu­bók­ar­dæmi.

Þegar fjár­magns­höft hafa verið við lýði í svo lang­an tíma, og þegar á bak við höft­in hef­ur safn­ast upp fjár­hæð sem nem­ur 70% af vergri lands­fram­leiðslu lands­ins, hlýt­ur los­un hafta að vera erfitt og vanda­samt verk,“ seg­ir Buchheit og bend­ir á að fram­kvæmda­hóp­ur um af­nám hafta og Seðlabanki Íslands hafi borið hit­ann og þung­ann af grein­ing­ar­vinnu sem var notuð við samn­ings­gerðina.

Tvær leiðir voru fær­ar

Eins og rakið er í grein hér fyr­ir neðan var Buchheit einn hinna er­lendu ráðgjafa sem stjórn­völd leituðu til vegna viðræðna við kröfu­hafa slita­bú­anna. Hann er þjóðþekkt­ur eft­ir gerð Ices­a­ve-samn­ing­anna.

„Sem teymi fór­um við yfir nokkr­ar mögu­leg­ar leiðir til að nálg­ast vand­ann. Verk­fær­in í verk­færa­k­ist­unni voru hins veg­ar ekki mörg. Al­mennt talað eru tvær leiðir fær­ar til að taka á miklu magni inn­lends gjald­eyr­is sem kann að leita úr landi þegar slakað er á höft­um. Það má annaðhvort reyna að minnka um­fang þess­ara eigna eða fresta út­flæði fjár­magns­ins með leng­ingu, eða fara leið sem er ein­hvers kon­ar blanda þess­ara tveggja.

Aðferðir til að minnka krónu­eign­ir fel­ast í tækni­leg­um út­færsl­um eins og upp­boða á gjald­eyri, sem er þá seld­ur á yf­ir­verði miðað við hefðbundið gengi, skatt­heimtu, val­frjálsu stöðug­leikafram­lagi með eft­ir­gjöf eigna og svo fram­veg­is. Aðferðir til að fresta út­flæði fjár­magns fela í sér tækni­leg­ar út­færsl­ur eins og að lengja end­ur­greiðslu­fer­il nú­ver­andi fjár­fest­inga, „hraðahindr­an­ir“ eða magntak­mark­an­ir, og svo fram­veg­is.“

Buchheit seg­ir það hafa verið nær sam­hljóða álit þeirra sem til þekkja að setn­ing haft­anna hafi verið nauðsyn­leg aðgerð eft­ir fjár­mála­hrunið en að þau haldi nú aft­ur af efna­hags­bat­an­um á Íslandi.

Vildu forðast geng­is­sveifl­ur

„Hvat­inn fyr­ir aðgerðunum sem kynnt­ar voru í gær [í fyrra­dag] er þörf­in fyr­ir að leysa greiðslu­jafnaðar­vanda Íslands, forðast geng­is­sveifl­ur og tryggja áfram­hald­andi efna­hags­bata. Hvat­inn að baki aðgerðunum var ekki sá að afla tekna. Ein af­leiðing aðgerðanna verður hins veg­ar sú að leiða af sér um­tals­vert fjár­streymi bæði króna og er­lends gjald­eyr­is í rík­is­sjóð Íslands. Þetta fé má nota til að draga úr skuld­um rík­is­sjóðs sem aft­ur ætti að leiða til þess að skulda­trygg­inga­álag lands­ins batni og lán­töku­kostnaður lækki,“ seg­ir Buchheit sem hóf störf fyr­ir fram­kvæmda­hóp um af­nám hafta um mitt síðasta ár.

Kom með nýja nálg­un

Heim­ildamaður blaðsins sagði Buchheit hafa ára­tugareynslu af lausn flók­inna mála. Komu Buchheits hafi fylgt nýj­ar áhersl­ur. Hann nálg­ist mál­in með aðferðafræði kylfu og gul­rót­ar, þ.e. aðferðafræði hörku eða umb­un­ar. Í til­viki hafta­áætl­un­ar­inn­ar er stöðug­leika­skatt­ur­inn kylf­an en gul­rót­in felst m.a. í því að stjórn­völd greiða götu nauðasamn­inga með laga­breyt­ing­um. Buchheit lagði ríka áherslu á greiðslu­jafnaðar­vand­ann og úr­lausn hans. Mik­il reynsla hans er tal­in eiga rík­an þátt í því að kröfu­haf­ar kusu að lúta stöðug­leika­skil­yrðum stjórn­valda og hafa þegar sent inn er­indi þess efn­is.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert