Nýr andaborgari fékk að líta dagsins ljós á Hamborgarafabrikkunni í dag. Borgarinn er gerður úr franskri peking önd sem kemur hingað til lands fullelduð og fryst. Borgarinn heitir Dagfinnur Dýralæknir.
„Við höfum alltaf verið með einhvern Sumarborgara en þessi kemur á sérstaklega heppilegum tíma þar sem hér er allt nautakjöt að klárast,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, eigandi Hamborgarafabrikkunar í samtali við mbl.is. Íslenskir neytendur hafa orðið varir við kjötskort á landinu vegna verkfalls dýralækna innan BHM sem hefur staðið síðan 20. apríl. Að sögn Jóhannesar munu birgðir Hamborgarfabrikkunar á nautakjöti sennilega klárast í vikunni.
Jóhannes segist hafa verið smeykur vegna verkfallsins fyrst um sinn enda hafði það verið yfirvofandi lengi. „En við erum orðnir sannfærðir um að matseðillinn standi þetta af sér í einhvern tíma, þetta eru ekki bara hamborgarar og það er það sem okkur hefur fundist skemmtilegt í þessu frá upphafi. Það er t.d. hægt að „kjúlla“ og „sveppa“ upp borgarana og það hefur verið töluvert vinsælt. Þá getur fólk fengið sína uppáhalds borgara með kjúkling eða sveppi í staðinn fyrir nautakjöt,“ segir Jóhannes.
Hann segir jafnframt að veitingastaðurinn muni leggja áherslu á ýmsar samsetningar þegar nautakjötið er ekki til staðar. Jóhannes bendir á að á matseðli Hamborgarafabrikkunar er hægt að fá fjölmarga rétti sem innihalda ekki nautakjöt, eins og grísasamloku, kjúklingabringu og salöt.
Að sögn Jóhannesar hefur það verið í einhvern tíma á plani Hamborgarafabrikkunar að bjóða upp á andaborgara. „Hann er búinn að vera í rólegheitaþróun síðan við byrjuðum að taka inn andakjöt fyrir andasalat sem er á matseðlinum. Þar er boðið upp á hægeldað andalæri en við höfum lengi verið með á teikniborðinu að setja saman svokallaðan „pulled duck burger“.“ Eins og áður kom fram kemur öndin fullelduð og frosin til Íslands frá Frakklandi. Hjá Hamborgarafabrikkunni er kjötið síðan eldað, rifið og bragðbætt með teriyaki sósu.
En eru Íslendingar hrifnir af önd?
„Ég held að það sé svona anda og grísa „móment“ í gangi á Íslandi. Maður heyrir t.d. mjög mikið um „pulled pork“ og grísarifin eru mjög vinsæl hjá okkur,“ segir Jóhannes. „Það er kannski aðeins meiri jaðarhópur sem borðar öndina, svona alla jafna. En það eru líka algjör trúarbrögð hjá þeim hópi. En ég held að öndin sé á töluverðri uppleið andakjöt er alveg mjög bragðgott og andafita alveg sérlega bragðgóð. Við vonum bara að fólk verði ánægt. Við erum allavega búnir að smakka þetta og orðnir 100% vissir um þetta. Mér finnst þetta rosalega gott.“
En nafnið á borgaranum, Dagfinnur Dýralæknir vekur athygli blaðamanns. „Okkur fannst þetta svolítið kómísk vísun í það sem er í gangi núna. Einhvern tímann seinna rifjar maður upp þessa skrýtnu tíma þegar við gátum ekki eldað nautahamborgara því dýralæknar voru í verkfalli. Sem orsakarsamhengi er það svolítið út úr kú,“ segir Jóhannes.
Hann leggur þó áherslu á að nafnið sé sett fram í fullri virðingu fyrir dýralæknum. „Að sjálfsögðu styðjum við þeirra kjarabaráttu sem og allra. Þetta er meira vísun í þessa verkfallstíð og góðlátlegt grín.“
Aðspurður hvort að honum hafi órað fyrir að eitthvað í líkingu við kjötskortinn sem hefur orðið í kjölfar dýralækna gæti gerst svarar Jóhannes því neitandi. „Nei ég hafði aldrei hugsað mér að þetta gæti gerst. Maður ímyndaði sér frekar að starfsfólkið færi í verkfall og það var líklegt fyrir nokkru síðan og enn er einhver möguleiki á því. En það hvarflaði ekki að okkur að nautakjötið myndi klárast. Vonandi hægt að vinna hratt og vel úr þessu máli og finna lausn sem að skilar sér raunverulega til þeirra sem eru að berjast fyrir kjarabótum.“