Hljóðið var þungt í Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni BHM, eftir að fundi samninganefndar BHM og ríkisins var slitið fyrr í kvöld. Hún segir að ríkið hafi ekki áhuga að meta menntun til launa.
„Þessi slit þýðir einfaldlega það að félögum í BHM hefur verið gert að þiggja það sem samið hefur verið um í öðrum samningum á vinnumarkaði. Við teljum að samningsréttur okkar sé að engu orðinn eftir tíu vikna verkfallsaðgerðir og margra mánaða viðræður við samninganefnd ríkisins
Við veltum því fyrir okkur hvort það væri ekki einfaldast að leggja niður samninganefndina niður og láta aðra um að semja.
Ríkisvaldið hefur ekki áhuga að meta menntun til launa né að halda í sérfræðinga í opinberri þjónustu. Við höfum miklar áhyggjur af stöðu opinberu þjónustunnar á Íslandi og stöðu þeirra stétta sem við höfum verið að semja fyrir.“
Hún segir dagurinn hafi verið mikil vonbrigði. Þá sjái hún alveg fyrir sér að félagsmenn BHM hugsi sig um starfsumhverfi hér á landi og fari að leita annað. „Okkar fólk hefur fært miklar fórnir í þessum verkfallsaðgerðir í tíu vikur og þetta hefur verið erfitt. Ég get ímyndað mér að einhverjir munu hugsa sinn gang.“
Viðræður hófust hjá BHM og ríkinu í desember 2014. Í dag, 10, júní er enn himinn og haf á milli og því var viðræðum slitið af ríkissáttasemjara og enginn fundur boðaður. „Við höfum allan tímann verið reiðubúinn að semja, unnið mikla vinnu, lagt okkur fram að reyna að ná samningum en það hefur varla þokast hinum megin við borðið.“