Björgunarsveitir á svæðinu frá Hellu að Vík eru þessa stundina á leiðinni að sækja erlendan göngumann sem er örmagna á gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls.
Maðurinn hringdi í Neyðarlínu og óskaði eftir aðstoð samkvæmt fréttatilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Maðurinn gat gefið nákvæmar upplýsingar um staðsetningu sína þar sem hann hafði komið auga á númeraða stiku sem björgunarsveitin Dagrenning frá Hvolsvelli og Rangárþing Eystra settu upp og merktu fyrir nokkrum misserum. Nákvæm staðsetning hverrar stiku skráð. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stikurnar koma að góðum notum við að staðsetja fólk á þessari leið segir í tilkynningunni.
Þá segir að maðurinn sé staddur ofan við snjólínu, við brúna yfir Skógaá. Ákveðið hafi verið að fara á staðinn úr fleiri en einni átt þar sem svartaþoka og ekkert skyggni er á hálsinum. Björgunarsveitir fara á bílum og vélsleðum yfir Eyjafjallajökul og upp frá Skógum. Ennfremur er verið að skoða hvort senda eigi hóp vestur Mýrdalsjökul.