Sólarorka nýtt í 48 af 104 vitum

Vegagerðin annast þjónustu við landsvitana, frá vinstri eru Sigurjón Eiríksson, …
Vegagerðin annast þjónustu við landsvitana, frá vinstri eru Sigurjón Eiríksson, Guðmundur Bernódusson og Ingvar Engilbertsson.

Síðari hluta þessa mánaðar fara menn á vegum Vegagerðarinnar hringinn í kringum landið á bát sem tekinn verður á leigu. Verkefnið er að þjónusta 35 vita frá sjó, en þá er unnið að fyrirbyggjandi viðhaldi, vatni bætt á geyma, skipt er um perur eftir þörfum, linsur og gler þrifið svo dæmi séu tekin. Þá er ástand ljósdufla eða bauja kannað, en í fyrra voru síðustu járnbaujurnar lagðar af og komu staurabaujur úr plasti í staðinn.

104 landvitar

Væntanlega verður farið á Dröfn RE í þessa tveggja vikna vitaferð eins og gert hefur verið síðasta áratug, en eigendur buðu rúmar níu milljónir í verkefnið í útboði Vegagerðarinnar. Eitt annað tilboð barst og hljóðaði það upp á tæpar 50 milljónir króna. Fram eftir síðust öld voru sérstök vitaskip í þjónustu við vitana, en einnig afskekktar byggðir þar sem samgöngur voru erfiðar á landi og sjó.

Nú eru 104 landvitar á skerjum og eyjum, nesjum og björgum og stöðum við strendur landsins þar sem þeirra var mest þörf fyrir sjófarendur. Sumum þeirra er hægt að sinna frá landi, en aðeins á þremur stöðum er búið; Dalatanga, Hrauni á Skaga og Sauðanesvita við Siglufjörð. Ekki eru ýkja mörg ár síðan vitaverðir voru búsettir á mörgum afskekktum vitum og sumir þeirra vor þjóðsagnapersónur í lifanda lífi.

Fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður á Valahnúk á Reykjanesi árið 1878. Í byrjun 20. aldar voru vitarnir fimm að tölu en uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954. Þá var ljósvitahringnum um landið lokað. Á vegum Vegagerðarinnar eru tveir vinnuflokkar í viðhaldi á vitabyggingum á sumrin og er reynt að taka um 20 vita á sumri. Á þann hátt tekst að halda í horfinu og klára hringinn á fimm árum.

Guðmundur Bernódusson, starfar sem rafvirki á vitadeild siglingasviðs Vegagerðarinnar, en hann hefur í 35 ár unnið við vitaþjónustuna, fyrst hjá Vita- og hafnamálastofnun, þá Siglingastofnun og loks Vegagerðinni, sem tók við þessu verkefni síðasta vetur. Hann var reyndar sjálfur vitavörður sem ungur maður á Galtarvita 1979-1982. Hann segir að miklar breytingar hafi orðið á síðustu áratugum og nefnir að vitum hafi aðeins fækkað með breytingum á búsetu og atvinnuháttum. Þannig hafi vitar í Ingólfsfirði og Bjarnarfirði á Ströndum verið lagðir af.

Þá séu lyklar að vitum, sem auðvelt er að komast að, nú komnir í þjónustustöðvar Vegagerðarinnar um allt land. Þaðan sé eftirliti sinnt og brýnustu viðgerðum, en samningum við yfir 20 menn í héraði sem áður höfðu þessi störf með höndum var sagt upp í fyrravetur. Guðmundur segir að þetta hafi verið gert í hagræðingarskyni og sé í samræmi við vinnulag sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum.

Gasvitar aflagðir 2005

„Mesta einstaka breytingin í vitunum var þó þegar við losnuðum við bölvað gasið,“ segir Guðmundur. „Fyrsti sólarorkuvitinn var settur upp á Vatnsleysuströnd 1988 og upp úr 1990 var farið í stórt átak í þessu verkefni. Nú er orku sólarinnar safnað í rafgeyma og notuð á 48 af vitum landsins, 55 staðir eru með tengingu við rafveitu. Í Norðfjarðarhorni er notast við einnota rafhlöður því þar er vitinn svo nálægt brúninni að sólin nær ekki að skína nógu mikið til að hlaða rafgeyminn. Síðasti gasvitinn var í Hvalfirði og var aflagður 2005.“

Vegagerðin annast rekstur landsvitakerfisins og hefur umsjón og eftirlit með uppbyggingu hafnarvita og innsiglingarmerkja. Landsvitar eru til leiðbeiningar á almennum siglingleiðum og eru í eigu og umsjá ríkisins en hafnarvitar, sem vísa leið inn til hafnar, eru í eigu og umsjá sveitarfélaga. Hafnarvitakerfið er byggt upp af tæplega 20 ljósvitum, um 90 innsiglingarljósum á garðsendum og bryggjum, rúmlega 80 leiðarljósalínum og tæplega 50 baujum er vísa leið í innsiglingum að höfnum, að því er fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Ekki íþyngjandi kerfi

Öryggishlutverki vitanna má skipta í þrennt. Þeir leiðbeina um staðsetningu, vara við siglingahættum og vísa leið inn á hafnir og skipalægi. En eru ljósvitar nauðsynlegir á öld gervitungla og fullkominna rafrænna leiðsögukerfa?

„Vissulega hefur öryggishlutverk vitanna breyst, en þeim mun meira öryggi þeim mun betra,“ segir Guðmundur. „Heimamenn eru ekki eins háðir vitunum og þeir voru áður, en finnst örugglega gott að vita af þeim. Ókunnir aðkomumenn, oft erlendir, nota vitana hins vegar mikið þegar komið er að í dimmu. Við höfum fylgt fordæmi Norðurlandanna á mörgum sviðum og meðan þeir eru ekki lagðir af þar held ég að við höldum okkar striki.

Svo er annað mál að þetta vitakerfi er alls ekki íþyngjandi því öll skip borga vitagjald, frá smábátum, til togara, flutningaskipa og farþegaskipa. Umferðin hefur aukist mikið, til dæmis með fjölgun skemmtiferðaskipa, og rekstur á vitakerfinu er sjálfbær og rúmlega það.“

Árið 2002 kom út bókin Vitar á Íslandi, Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002, og er þar að finna mikinn fróðleik um vita á Íslandi og í sögulegu samhengi. Höfundar eru Guðmundur L. Hafsteinsson, Kristján Sveinsson og Guðmundur Bernódusson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert