„Það þurfa allir að leggjast á eitt“

Fólk er hvatt til að styrkja söfnunina til að bæta …
Fólk er hvatt til að styrkja söfnunina til að bæta aðgengi hjólastóla í Bíó Paradís. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hópsöfnun kvikmyndahússins Bíó Paradís lýkur á miðnætti í kvöld en stefnt er að því safna 4,5 milljónum króna til að bæta aðgengi að sýningarsölum og salernum fyrir fólk í hjólastólum. Söfnunin hefur tekið mikinn kipp og vonir standa til að það takist að safna því sem til þarf.

„Þessi lokasprettur er geggjaður og við erum núna komin í 70% af því sem við þurfum,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, í samtali við mbl.is. „Við vorum komin með 50% í morgun og í gærmorgun rúmlega 30%. Síðasta sólarhringurinn hefur breytt öllu fyrir okkur en við vorum orðin vonlítil í gærmorgun.“ Síðan hafi söfnunin tekið mikinn kipp sem sé afar jákvætt. „Þetta er frábært fordæmi fyrir svipaðar safnanir sem sýnir að það er hægt að klára svona mál, það þurfa bara allir að leggjast á eitt.“

Söfnuninni lýkur á miðnætti og því eru síðustu forvörð fyrir fólk til að kaupa miða eða kort í Bíó Paradís og styrkja framkvæmdirnar í leiðinni. „Við höfum alla trú á því að þetta klárist. Fólk er að taka við sér og það vilja allir að þetta verði að veruleika.“ 

Bíó Paradís ákvað að hrinda þessari söfnun af stað þar sem aðgengismálin í bíóinu hafa að þeirra mati verið til skammar. „Við höfum látið taka húsnæðið út og það duga ekki ódýrar lausnir. Við þurfum meðal annars að setja lyftur og laga klósett og það er mun kostnaðarsamara en menningarstofnun í sjálfseignarrekstri ræður við.“

Framkvæmdirnar eru of kostnaðarsamar fyrir bíóið að sögn Hrannar. Það gæti ekki einu sinni tekið lán fyrir þeim. „Við sóttum upplýsingar um alla sjóði sem styrkja svona framkvæmdir, sóttum um í þá og höfum ekkert fengið. Reyndar eru afar fáir sjóðir sem styrkja framkvæmdir til að gera hús aðgengishæfari fyrir fatlaða. Þetta er því eiginlega það eina sem við gátum gert í stöðunni, stofna til þessarar söfnunar á netinu.“

Söfnunin á Karolina Fund

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert