„Við þurfum að velta því fyrir okkur mjög alvarlega hvort það séu einhverjar líkur á að samningar geti náðst eftir níu vikna verkfall.“
Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra í samtali við mbl.is spurður hvort sett verði lög á kjaradeilu BHM við ríkið. Eins og mbl.is hefur greint frá slitnaði í kvöld upp úr viðræðum BHM við ríkið eftir 13 klukkustunda viðræðufund í húskynnum ríkissáttasemjara. Bjarni segir að farið verði yfir stöðuna sem upp sé komin í kjaradeilunni á morgun.
„Það er kjarnaatriði í þessari deilu að það er verið að óska eftir kjarabótum sem eru talsvert umfram það sem almenni markaðurinn hefur samið um. Þegar maður lítur til þess annars vegar og hins vegar til vaxtahækkunar Seðlabankans í dag þá sýnist manni að það séu ekki miklar líkur á lausn,“ segir hann ennfremur. Fundi lauk í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga í dag og hefur annar fundur ekki verið boðaður. Spurður um stöðuna í kjaradeilu þeirra segir Bjarni:
„Það er mjög erfitt þegar menn koma að samningaborðinu með væntingar um að fá það sama og aðrir og því til viðbótar leiðréttingu á uppsafnaðri skekkju undanfarinnar ára jafnvel upp á tugi prósenta. Það einfaldlega gengur ekki upp í núverandi efnahagsástandi. Þetta hafa verið mjög erfiðar viðræður,“ segir Bjarni en verkfall hjúkrunarfræðinga stendur nú yfir. Bjarni segir ríkið hafa lagt mikið að mörkum til að reyna að leysa þá deilu.
„Við höfum lagt mikið að mörkum og haft miklar áhyggjur af því verkfalli. Það vita allir að það hefur haft alvarlegar afleiðingar. Við höfum nálgast þær viðræður með þeim hætti að við viljum að fólk skynji að við kunnum að meta þeirra störf og berum virðingu fyrir þeirra stétt og mikilvægi hennar innan heilbrigðiskerfisins. En okkur eru takmörk sett í því hvað við getum í einum samningi gert til þess að bæta kjörin og ganga frá leiðréttingum vegna einhvers uppsafnaðs vanda.“