Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum formaður Bændasamtaka Íslands, segir að tíma og fjármunum hafi verið sóað í að bíða eftir skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um mjólkurvöruframleiðslu. Tímanum hefði betur verið varið til að treysta framtíðarhorfur mjólkurframleiðslu á Íslandi.
Hann gagnrýnir skýrsluna harðlega í pistli á Fésbókarsíðu sinni og segist vona að hún hafi ekki kostað mikið.
„Það getur reyndar ekki verið þegar flett er í gegnum hana og skoðuð efnistök og ályktanir. Látum ályktanir liggja á milli hluta - þar ræður viðhorf þeirra sem á penna halda. Rétt eins og sú ályktun sem ég skrifa hér um skýrsluna. Í það minnsta er þetta tæplega það gagn sem vonast var eftir að til byggja framtíðarstefnumótun á,“ segir hann.
Í skýrslunni, sem birt var í gær, er meðal annars lagt til að innflutningstollar á mjólkurvörum verði lækkaðir þannig að ýmsar erlendar mjólkurvörur verði boðnar til sölu hér á markaði. Einnig er lagt til að kvótakerfi og beingreiðslur verði lagðar niður og tekið upp breytt styrkjakerfi.
Í skýrslunni er beinn og óbeinn stuðningur settur upp í þá mynd að árin 2011 og 2013 kostaði mjólk á bændaverði neytendur og ríkið 15,5 milljarða króna á ári að jafnaði. Innflutt mjólk hafi kostað tæplega 7,5 milljarða, með flutningskostnaði, og þvíh afi stuðningur ríkis og neytenda við framleiðsluna verið um 8 milljarðar á ári.
Haraldur segir þetta „ótrúlegt dæmi“ um samanburð.
„Hér virðist hvorki vera borið saman sama vara né verð né sama verð.
Íslensk vara er fersk mjólk sem nota má í hvaða vöru sem er; erlent verð er meðalverð á undanrennu og smjöri sem ekki er hægt að nota til framleiðslu nema lítils hluta mjólkurafurða.
Verð á Íslandi er með öllum styrkjum en verð á erlendis er án tillits til styrkja við framleiðslu. - Til viðbótar eru bændaverð í dag langt undir eðlilegri verðlagningu - sem gerir þennan samanburð sérstaklega ósvífin - að ekki sé meira sagt. Það er krísuástand í evrópskri mjólkurframleiðslu og reyndar um heim allan, í dag. Hundruð búa verða gjaldþrota í hverri viku. Að taka bændaverð í dag og gera ekki neina tilraun til að leiðrétta fyrir ástandi sem nú ríkir er því einfaldlega alvarleg blekking - að ekki sé talað um hvernig að því er síðan staðið og við hvað er miðað,“ segir Haraldur.
Fréttir mbl.is: Tollar af mjólkuvörum lækki