Katrín Júlíusdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að seinasta ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefði á sínum tíma talað um svipur og gulrætur sem tæki í samningana við erlendu kröfuhafana.
Framsóknarflokkurinn hefði því ekki verið eini flokkurinn sem vildi beita þessari nálgun, þ.e. aðferðafræði hörku eða umbunar. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði fyrr í dag að hlegið hefði verið að framsóknarmönnunum þegar þeir hefðu talað um „kylfu og gulrót“ í þessu sambandi fyrir seinustu þingkosningar.
„Það er þannig í þessu máli, og það er gleðiefni, að við kölluðum eftir því að um þetta næðist þverpólitísk samstaða,“ sagði Katrín. Hins vegar hefði ríkisstjórnin reynt á síðastliðnum tveimur árum að búa til eitthvað annað, ósætti, um málið. „En nú virðumst við aftur vera að ná saman. Menn eru komnir í hring í málinu.“
Hún benti á að núverandi ríkisstjórn hefði ákveðið að fara samningaleiðina sem unnið var eftir í tíð seinustu ríkisstjórnar. „Niðurstaða málsins er að við getum fyllilega náð saman í þessu máli.“
Frétt mbl.is: Stjórnarandstæðingar biðjist afsökunar