Verkfall hægir á grasvexti

Notuð hafa verið gömul fræ eða fræ sem nota átti …
Notuð hafa verið gömul fræ eða fræ sem nota átti síðar í sumar á golfvellina. mbl.is/Golli

„Við getum ekki byrjað yfirsáningar eins og við ætluðum okkur. Okkur tókst að verða okkur úti um fræ frá því í fyrra sem bjargar málunum eins mikið og hægt er. Við vorum búnir að kaupa ákveðna tegund af fræi sem spírar hratt við lágt hitastig og átti að nota í fyrstu yfirsáningu en það hefur ekki skilað sér út af verkfallinu,“ segir Magnús Bjarklind hjá Eflu verkfræðistofu, sem skipuleggur og heldur utan um umhirðu á knattspyrnuvöllum ÍTR.

Vísar hann þar til verkfalls líffræðinga hjá Matvælastofnun en sökum verkfallsins hefur ekki verið hægt að flytja inn þær fræblöndur sem hafa verið notaðar í yfirsáningu snemma sumars undanfarin ár.

„Við erum í raun að nota fræ sem við ætluðum að nota í júlí og það er verið að yfirsá því í alla keppnisvelli. Þetta er slæmt ástand og ég veit til þess að margir golfvellir eiga ekkert fræ. Þeir eru að bíða með velli sem líta illa út og þurfa yfirsáningu,“ segir Magnús.

Jón Gíslason, forstjóri MAST, segir að áburður sé skráður áður en leyfi er veitt til innflutnings. Nokkrar undanþágubeiðnir hafa borist undanþágunefnd líffræðinga vegna innflutnings á áburði og fræi en þeim hefur öllum verið hafnað að sögn Jóns.

Bjarni Þór Hannesson, vallarstjóri hjá Golfklúbbnum Keili, segir að um 20 kíló séu eftir af fræi hjá golfklúbbnum. Það er aðeins brot af því sem sáð er í einni sáningu, sem er um 300 kíló.

„Okkur vantar gróandann“

„Fræstaðan er nánast núll. Golfvellirnir hafa verið að koma ágætlega undan vetri og líta þeir út eins og góðir golfvellir snemma í maí. Þarna vantar okkur gróanda til að halda á móti traffíkinni á völlunum,“ segir hann en bætir við að sökum lágs hitastigs sé þó minni traffík af golfurum á völlunum.

Hann segir meðalhita í Reykjavík í maí hafa verið 4,6 gráður og að venjulega vaxi grasið ekki mikið þegar hiti er undir fimm gráðum. „Meðalhiti er venjulega tveimur gráðum hærri. Núna er meðalhitinn í kringum sex gráður,“ segir hann og bætir við að sökum hitastigs hefði spírun hingað til hefði ekki verið gígantísk þó svo að lagerstaða af fræi hefði verið góð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert