Átta þúsund vilja í Háskóla Íslands

Gert er ráð fyrir að um 14 þúsund nemendur verði …
Gert er ráð fyrir að um 14 þúsund nemendur verði við nám í Háskóla Íslands í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Háskóla Íslands bárust liðlega átta þúsund umsóknir um grunn- og framhaldsnám fyrir komandi skólaár, en umsóknarfrestur um grunnnám rann út föstudaginn 5. júní. Alls eru umsóknir um grunnnám tæplega fimm þúsund, en áætlanir framhaldsskólanna gerðu ráð fyrir að rúmlega þrjú þúsund manns myndu brautskrást með stúdentspróf um síðustu jól og í vor.

Að auki bárust skólanum rúmlega þrjú þúsund umsóknir um að hefja framhaldsnám næsta haust.

150 vilja verða grunnskólakennarar

Umsóknum um grunnnám í menntavísindum og kennslufræði fjölgar á milli ára en alls bárust Menntavísindasviði skólans nærri 670 umsóknir. Rúmlega 150 þeirra eru um nám í grunnskólakennarafræði en til viðbótar bárust samanlagt nærri 50 umsóknir um nám í kennslufræði verk- og starfsmenntunar og kennslufræði fyrir iðnmeistara.

Þá bárust yfir 110 umsóknir samanlagt um nám í leikskólakennarafræði til B.Ed.-prófs og grunndiplómu en síðarnefnda námsleiðin er ný af nálinni. Enn fremur eru umsóknir um nám í þroskaþjálfafræði rúmlega 90 talsins.

Ásókn eykst í rafmagns- og tölvuverkfræði

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði bárust líkt og undanfarin ár flestar umsóknir um nám í tölvunarfræði en þær eru um 250 að þessu sinni. Auk þess sækjast 135 eftir að hefja nám í ferðamálafræði. Sjötíu umsækjendur hyggja á nám í rafmagns- og tölvuverkfræði og eru það nærri tvöfalt fleiri umsóknir en í fyrra.

Heildarfjöldi umsókna um grunnnám í verkfræði- og tæknifræðigreinum við sviðið er nærri 370. tólf umsóknir bárust um nýja námsleið í stærðfræði, hagnýtta stærðfræði. Heildarfjöldi umsókna um grunnnám á sviðinu var tæplega 1000.

Umsóknir um grunnnám á Hugvísindasviði reyndust rúmlega 1070 að þessu sinni. Af þeim eru um 400 um nám í einu af þeim tólf tungumálum sem boðið verður upp á í skólanum á næsta ári. Þá bárust tæplega 300 umsóknir um nám í íslensku sem öðru máli og nærri 70 um grunnnám til BA-prófs í íslensku.

446 í viðskiptafræði, 160 í lögfræði

Litlu færri, eða tæplega 1060, umsóknir um grunnnám bárust Félagsvísindasviði. Þar af eru 446 þeirra um nám í viðskiptafræði sem jafnframt er mesti fjöldi umsókna í einni grein í Háskóla Íslands. Enn fremur bárust 160 umsóknir um nám í lögfræði en Lagadeild nýtir nú í annað sinn aðgangspróf til að taka inn nemendur. Við þetta má bæta að liðlega 130 hyggja á nám í félagsráðgjöf og rúmlega eitt hundrað í stjórnmálafræði.

Um 1100 umsóknir bárust Heilbrigðisvísindasviði að þessu sinni en inni í þeirri tölu eru um 270 nemendur sem þreyta inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun dagana 11. og 12. júní. Af þeim fjölda verða 48 teknir inn í læknisfræði og 35 í sjúkraþjálfun. Sálfræði er sem fyrr afar vinsæl námsgrein á sviðinu en Sálfræðideild bárust alls rúmlega 300 umsóknir um grunnnám að þessu sinni.

Þá stefna um 180 á nám í hjúkrunarfræði en deildin nýtir nú í fyrsta sinn aðgangspróf til þess að taka inn nemendur í stað samkeppnisprófa sem jafnan voru haldin að loknu haustmisseri á fyrsta ári. Umsóknum í bæði lífeindafræði og geislafræði fjölgar á milli ára og eru þær samtals 105, eða 50% fleiri en í fyrra. Það verður að teljast athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að stéttirnar hafa staðið í harðri kjarabaráttu undanfarnar vikur.

Rúmlega 3000 umsóknir um framhaldsnám

Umsóknir um framhaldsnám á meistarastigi eru nærri 3.150 og er liðlega þriðjungur þeirra á Félagsvísindasviði, eða rúmar 1300.

Föstudaginn 12. júní næstkomandi fer fram Aðgangspróf fyrir háskólastig eða A-próf, hið síðara á þessu ári. Fjórar deildir við skólann nýta prófið til inntöku nemenda haustið 2015; Hjúkrunarfræðideild, Lagadeild, Hagfræðideild og Læknadeild en tvær síðastnefndu deildirnar nota einnig frekari sértæk próf við inntöku nema. 

Heimilt er að bjóða upp á A-prófið tvisvar á ári og fór prófið einnig fram í mars síðastliðnum. Þá þreyttu tæplega 250 manns A-prófið í Háskóla Íslands og á samstarfsstöðum skólans á landsbyggðinni en alls hafa 316 nemendur skráð sig til prófsins þann 12. júní.

Miðað við fjölda umsókna og ef mið er tekið af reynslu síðustu ára má búast við að nemendafjöldi við Háskóla Íslands verði hartnær sá sami og  haustið 2014, eða á fjórtánda þúsund nemendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert