„Mér líst afskaplega illa á þetta“

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Formenn Bjartrar Framtíðar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs telja ekki rétt að setja lög á verkföll hjúkrunarfræðinga og einstakra aðildarfélaga BHM.

„Ég get ekki sagt annað á þessari stundu en að mér líst afskaplega illa á þetta,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar Framtíðar, þó með þeim fyrirvara að hafa ekki fengið að sjá frumvarpið.

Frétt mbl.is: Lög verði sett á verkföllin

Við erum búin að vera að rukka eftir því í þingsal um nokkurt skeið, alveg frá því að ljóst var í hvað stefndi á vinnumarkaði, hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera í þessu,“ segir Guðmundur. „Við höfum fengið þau svör ítrekað frá þingmönnum stjórnarmeirihlutans og ráðherrum að það sé ekki ríkisstjórnarinnar eða þingsins að skipta sér af kjaramálum. „Kjaramálin verða ekki leyst í þingsal,“ svoleiðis setningar hafa verið látnar falla,“ segir Guðmundur.

Hann segir lög á verkfall vera ýtrustu úrræði. „Miðað við hvernig ríkisvaldið, undir forystu þessarar ríkisstjórnar, hefur nálgast þessar kjaradeilur, þá er þetta ekki ýtrasta úrræði.“

Guðmundur telur að ekki hafi verið fullreynt að semja í deilunni. „Ekki miðað við þau svör sem við höfum fengið í þingsal,“ segir hann. „Mér finnst ríkisstjórnin hafa nálgast þetta verkefni af miklu sinnuleysi og vísa ábyrgðinni algjörlega á hana ef þetta á að vera niðurstaðan. Ég get ekki tekið þátt í því,“ segir Guðmundur.'

Mjög dapurleg ráðstöfun

„Mér finnst þetta auðvitað mjög dapurleg ráðstöfun. Þó að þetta sé auðvitað búin að vera erfið deila þá er ég ekki sannfærð um að allt sé fullreynt,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. „Það skýtur líka dálítið skökku við að stjórnvöld telji sig ekki getað gengið lengra í að tryggja kjör þessara stétta á sama tíma og þau boða skattalækkanir.“

Katrín segir ekki hafa verið farið yfir hvort þingmenn VG telji frumvarpið þurfa mikillar umræðu við í þinginu. „Hér eru auðvitað búnar að vera verkfallsaðgerðir vikum saman þannig að það liggur fyrir að landið sé að lokast á miðnætti vegna verkfallsaðgerða eða neitt slíkt eins og stundum hefur verið í þessu,“ segir Katrín.

Frumvarpið verður kynnt stjórnarandstöðunni á fundi klukkan níu í fyrramálið, klukkutíma áður en þingfundur hefst.

Guðmundur Steingrímsson segir vel mögulegt að stjórnarandstaðan muni vilja ræða málið til hlítar í þinginu. „Ég geri allt eins ráð fyrir því,“ segir hann, en þó með þeim fyrirvara að hann hefur ekki séð frumvarpið eða frumvörpin. „Allt sem ég segi segi ég með þessum fyrirvara, en ég held þetta hljóti að snúast um að setja lög á hjúkrunarfræðinga og aðrar stéttir,“ segir Guðmundur.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert