Nýi Hljómalindarreiturinn í Reykjavík er farinn að taka á sig mynd og er búið að steypa upp 60% af fyrirhuguðu byggingarmagni Icelandair Hótel Reykjavík Cultura.
Reiturinn afmarkast af Laugavegi, Smiðjustíg, Hverfisgötu og Klapparstíg. Þingvangur byggir upp reitinn og segir Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri félagsins, í Morgunblaðinu í dag, að steypuvinnu ljúki í september eða október.
„Stefnan er að ljúka við allar byggingarnar og torgið á milli þeirra um vorið 2016. Við erum byrjaðir að grafa grunn fyrir síðasta húsið, sem verður reist að Klapparstíg 30. Húsin að Laugavegi 17 og 19 og viðbyggingar eru uppsteypt og er verið að ganga frá þeim að innan og utan. Hótelið er í uppsteypu og er á áætlun. Innivinna er að hefjast í kjallara og á jarðhæð,“ segir Pálmar.
Til viðbótar er búið að steypa upp Hverfisgötu 28, en í húsinu númer 26 er skemmtistaðurinn Celtic Cross á jarðhæð, á horni Smiðjustígs og Hverfisgötu.
Á Laugavegi 17 og 19 og Klapparstíg 28 og 30 verð- ur þjónusta og verslanir á jarðhæð en íbúðir á efri hæð- um. Pálmar segir húsin að Laugavegi 17 og 19 verða tilbúin eftir hér um bil fjóra mánuði.
Þegar fyrst var greint frá verkefninu var rætt um að framkvæmdum myndi ljúka fyrir sumarið 2015 þannig að hægt yrði að taka á móti fyrstu gestum hótelsins í sumarbyrjun. Sú áætlun breyttist og var þá áformað að ljúka verkefninu fyrir árslok 2015. Þeirri áætlun var svo breytt og er nú sem fyrr segir miðað við að reiturinn verði tilbúinn næsta vor.
Pálmar segir það eiga þátt í að uppbyggingin tafðist að Icelandair-hótelin hafi ákveðið að fækka herbergjum á Cultura-hótelinu úr 144 í 115. Með því sé hægt að stækka herbergin og bjóða meiri gæði.
„Hótelið breyttist. Það þurfti að hanna hluta þess upp á nýtt. Það hægði á framkvæmdunum um fjóra mánuði. Þessi ákvörðun var tekin af leigjanda okkar,“ segir Pálmar, en Icelandair-hótelin munu gera 25 ára leigusamning vegna hótelsins.
Að sögn Pálmars vinna að jafnaði um 50 manns að uppbyggingu reitsins. Hann segir iðnaðarmönnum munu fjölga þegar nær dragi verklokum.
Fram kemur á vef arkitektastofunnar Arkþings, sem hannar nýja Hljómalindarreitinn, að þar verði hótel, veitingastaðir, verslanir og íbúðir. Bæði sé um nýbyggingar að ræða sem og viðbyggingar við eldra húsnæði og endurbætur. Nýtt almenningstorg verður á reitnum með aðgengi frá Laugavegi og Smiðjustíg