Þingið ekki í fyrsta sæti

Þingmenn stjórnarandstöðunnar fjölmenntu í ræðustól Alþingis við upphaf þingfundar í dag og gagnrýndu harðlega að einungis tveir ráðherrar væru viðstaddir til þess að svara óundirbúnum fyrirspurnum frá þingmönnum. Aðrir ráðherrar sem hafi átt að vera viðstaddir hafi afboðað sig með skömmum fyrirvara. Einungis nokkrum mínútum.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði greinilegt að þingið væri ekki í fyrsta sæti hjá umræddum ráðherrum. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði ljóst að ráðherrar væru orðnir ansi lúnir eftir veturinn og lýsti áhyggjum sínum af heilsuleysi þeirra. Fyrir utan Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sem ávallt væri til staðar til þess að svara fyrirspurnum þingmanna. Auk hans var Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra mætt í morgun. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kom nokkru síðar.

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, sagði framgöngu ráðherranna vera vanvirðingu við Alþingi. Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sagði framgönguna algerlega óásættanlega. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, gagnrýndi forsætisráðherra fyrir að yfirgefa þingsalinn undir umræðunni. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, kallaði eftir því að forseti Alþingis setti þinginu nýja starfsáætlun.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagðist hafa vitað með skömmum fyrirvara að umræddir ráðherrar yrðu ekki viðstaddir þingfund. Það væri óheppilegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert