„Eins og einhver hefði sparkað í magann á mér“

Guðrún Ösp heilsar Noregi, en er ekki ánægð með það.
Guðrún Ösp heilsar Noregi, en er ekki ánægð með það. mbl.is/Styrmir Kári

„Heia Norge“ var viðkvæðið á Austurvelli í dag þar sem hjúkrunarfræðingar fóru fyrir á fimmta hundrað mótmælenda úr röðum félagsmanna BHM og félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Mikill meirihluti mótmælandanna voru konur og enginn hörgull var á viðmælendum sem íhuga eða hafa jafnvel þegar ráðið sig í starf til Noregs.

Edda Jörundsdóttir, svæfingarhjúkrunarfræðingur hefur starfað á svæfingdeild og gjörgæslu í 15 ár en rennir nú hýrum augum til frændþjóðarinnar. 

„Ég hef unnið þar og líkar vel, fer svona einu sinni tvisvar á ári,“ segir Edda. Hún segist helst vilja búa á Íslandi áfram en að hjúkrunarfræðingum sé hreint ekki til setunnar boðið og nefnir í því samhengi að tvær af nánari vinkonum hennar innan stéttarinnar hafi flutt til Noregs á liðnum vetri. „Ég heimsótti aðra þeirra um daginn og fékk svolítið bakteríuna í mig, að taka stökkið.“

Edda segir nauðsynlegt að hækka laun hjúkrunarfræðinga til þess að þau verði samkeppnishæf á við önnur lönd ekki síst til þess að tryggja nýliðun í stéttinni.

„Ég er allavega búin að telja börnin mín af því að leggja fyrir sig hjúkrun. Eins og þetta er spennandi og skemmtilegt starf að öðru leiti þá eru launin ekki boðleg.“

Þegar þetta er skrifað stendur inni umræða á þinginu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um bann á yfirstandandi verkfall stéttarinnar. Edda, líkt og aðrir mótmælendur, er afar ósátt við þá hugmynd.

„Ég var á vaktinni þegar ég fékk fréttirnar í gær og mér leið eins og einhver hefði sparkað í magann á mér. Við erum rosalega sár og reið.“

Upp á eiginmanninn kominn árið 2015

Guðrún Ösp Theódórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til átta ára, heldur á skilti sem á stendur „Keep calm and heia Norge“. Hún er svo sannarlega rólyndisleg í fasi en undir yfirborðinu má þó greina að hún er allt annað en sátt við tilhugsunina um að flytjast úr landi.

„Það er bara ekkert annað í boði. Ég er að sækja um norskt hjúkrunarleyfi," segir hún. „Ég ákvað það þegar þeir ákváðu að setja lög á okkur. Ég fæ ekki að semja um mín laun heldur á að skikka mig til lélegra launa, ég hef ekki áhuga á því.“

„Ég er búin með 304 einingar í háskóla, ég er að klára mastersnám og ég fæ 250 þúsund kall  til að koma mat á borðið fyrir börnin mín. Ég er bundin mínu hjónabandi og því að maðurinn minn hafi tekjur. Ég er ekki til í það á Íslandi árið 2015 og það viku fyrir 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.“

„Við erum bara búin að fá nóg“

„Við erum að fara til Noregs í haust, ég og maðurinn minn og þrjú börn,“ segir Sylvia Latham sem bankar taktfast í bekken á milli þess sem hún ræðir við blaðamann. „Við getum ekki framfleytt okkur lengur á þeim launum sem ég og maðurinn minn erum á hér.“

Sylvia er menntuð í Bretlandi og búin að vera hjúkrunarfræðingur í 15 ár. Hún sér ekki fram á fleiri launahækkanir nema hún fari í mastersnám. „Ég er ekki alveg tilbúin til að fara í mastersnám og skuldsetja mig til þess að fá einhverja 5.000 króna launahækkun. Manni heyrist það að allir hjúkrunarfræðingar Íslands, 2.000 talsins geti fengið vinnu úti, svo nú er bara að kýla á það.“

Hún segir ákvörðunina um að fara til Noregs hafa verið tekna í febrúar og að atburðarrásin hafi verið hröð en að þau hafi engu að tapa. „Okkur langar bara til að geta eytt meiri tíma með börnunum okkar, þurfa ekki að vinna allan sólarhringinn alla daga ársins, alla rauða daga. Við erum bara búin að fá nóg.“

Sylvia segir ákvörðunina að fara út bæði hafa verið erfiða og ekki en að eftir daginn í dag sé alveg ljóst að þau séu á leiðinni út. „Það er ekkert annað í boði.“

Sylvia Latham hefur þegar ráðið sig í vinnu í Noregi.
Sylvia Latham hefur þegar ráðið sig í vinnu í Noregi. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert