Fyrstu umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um að fresta verkfalli BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga lauk klukkan tíu í gærkvöldi. Var málinu þá vísað til allsherjar- og menntamálanefndar en fundur nefndarinnar hófst klukkan 8:30 í morgun.
Á fundinn munu mæta helstu deiluaðilar ásamt forsvarsmönnum Landspítalans, lögfræðingum og fleirum. Fundurinn hófst, eins óg áður segir, klukkan hálfníu og er búist við því að hann standi til hádegis.
Að óbreyttu hefst svo þingfundur eftir hádegi.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sagði við Morgunblaðið í gærkvöldi að stefnt væri að því að klára lagasetninguna í dag.
Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði fundinn vera samkvæmt hefðbundnum ferli máls á Alþingi. „Við munum mæta þar og gera grein fyrir okkar skoðun á þessu frumvarpi.“
Lögfræðingur félagsins og samninganefnd þess munu einnig mæta á fundinn. „Þegar ríkisstjórnin telur sig hafa meirihluta fyrir frumvarpi sem þessu þá gerir maður ráð fyrir því að það verði samþykkt,“ sagði hann.