Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, furðaði sig á því á Alþingi í gærkvöldi að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefðu fylgst með viðureign Íslands og Tékklands í forkeppni Evrópumatsins á Laugardalsvelli.
Meðan á leiknum stóð var tekist á um frumvarp ríkisstjórnarinnar um lög á verkfall BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
„Sumir þingmenn stjórnarliðsins voru að býsnast yfir því hvar þingflokksformenn og formenn minnihlutans eru. Ég get sagt þeim það. Þeir eru á fundi með aðilunum sem verkfallið á að setja á. Ég get líka sagt þessum sömu þingmönnum hvar stjórnarherrarnir eru. Þeir eru á landsleiknum í stað þess að sitja hér í þinghúsinu og ræða þetta mál.
Fyrsta flokks heilbrigðiskerfi er ekkert forgangsatriði fyrir þessa ríkisstjórn,“ sagði Jón Þór.
Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðu áður spurt hvers vegna ráðherrabekkurinn væri nánast tómur.