Á næstu dögum þarf að fara yfir og forgangsraða þeim málum sem hafa safnast upp meðan á verkfalli hjúkrunarfræðinga stóð. Málið er risavaxið og mun kalla á náið samstarf allra heilbrigðisstétta til að hægt verði að vinna á vandanum. Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans í samtali við mbl.is, en fyrr í kvöld voru lög á verkföll BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga samþykkt á Alþingi.
Páll segir málið sérstaklega flókið þar sem spítalinn sé alltaf keyrður á 100% afköstum. Þetta kalli því á aukna fjármuni til spítalans svo hægt verði að vinna á þessum uppsafnaða vanda. Þá séu sumarfrí að skella á sem geri alla vinnu og greiningu á vandamálinu erfiðari. Segir hann að ekki sé búið að meta kostnað við að vinna á vandanum, en það verði skoðað á næstunni.
Hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk spítalans mun að sögn Páls mæta til starfa í nótt samkvæmt vaktaskema, en hann er búinn að senda póst á stjórnendur spítalans og starfsmenn varðandi næstu skref. Segir Páll að tilfinningarnar séu blendnar, þar sem það hafi vissulega verið ljóst að þessu ástandi yrði að ljúka. „Hef líka áhyggjur af því að deilan er áfram óleyst,“ segir Páll. Hann biðlar til deiluaðila að ná saman og segir að það muni skipta miklu máli hvernig takist til á næstu vikum að ná sáttum. „Sátt er það sem þarf til að halda áfram uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.“
Páll segist verða að taka það fram að til lengri tíma verði þessi mál ekki leyst nema í sátt, aðspurður um hvort hann hræðist ekki uppsagnir hjúkrunarfræðinga, miðað við yfirlýsingar síðustu daga. Segir hann ljóst að huga verði að líðan starfsfólks, sem sé aðframkomið eftir langar deilur, en eins og forsvarsmenn FÍH hafa greint frá er mikil óánægja með lagasetninguna og telja hjúkrunarfræðingar að ekki hafi verið hlustað á þá.